133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:41]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F):

Hæstv. forseti. Mér fannst athyglisvert í þessari síðustu ræðu að þingmaðurinn taldi sérstaklega ástæðu til að nefna Vestfirðinga, Vestlendinga og Norðlendinga, og þá ætla ég að bæta Reykvíkingum við. (Gripið fram í.) Um er að ræða þjóðveg í þéttbýli og það er rétt að þarna verður að gera úrbætur. Ég legg þunga áherslu á að horft verði á þetta mál allt í samhengi, m.a. tvöföldun Hvalfjarðarganganna sem ég held að flestir séu sammála um að þurfi að verða á næstunni vegna þess að þau göng eru við það að springa. Úrbætur á þessum slóðum, þ.e. frá gangamunnanum að Kollafirði og síðan Sundabrautinni, eru mjög brýnar. Þegar Sundabrautin kemur má ekki standa á að búið sé að gera úrbætur í þessum efnum. Á meðan beðið er skipulagsákvarðana um Sundabraut er mikilvægt að vinna heimavinnuna varðandi þessa hluti og hraða framkvæmdum eins og kostur er.