133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

háhraðanettengingar.

147. mál
[14:47]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: „Er áætlað að tryggja þeim rúmlega 20.000 íbúum landsbyggðarinnar, sem eru án háhraðanettengingar, aðgang að slíkri tengingu á næsta fjárlagaári? Ef svo er, hver er sú áætlun, skipt eftir landsvæðum?“

Alþingi samþykkti vorið 2005 þingsályktun um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010, eða fjarskiptaáætlun, og eftir henni er unnið. Eitt af þeim markmiðum sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun er að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum. Til að vinna m.a. að þessu markmiði voru samþykkt lög um Fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, en eitt af hlutverkum sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu á sviði stofnkerfa fjarskipta. Ríkissjóður hefur lagt sjóðnum til stofnfé að upphæð 2,5 milljarðar kr. sem er hluti af söluandvirði Landssíma Íslands hf. Sjóðurinn hefur þegar fengið til ráðstöfunar 1 milljarð en ráðgert er að fjármunir til sjóðsins skili sér að fullu árið 2009.

Verkefnastjórn fjarskiptaáætlunar hefur yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar og vinnur m.a. að þessu verkefni en hún er jafnframt stjórn Fjarskiptasjóðs. Við þessa vinnu verður að gæta að reglum EES um ríkisaðstoð eins og fram hefur komið fyrr í dag. Í fyrsta lagi má ekki styrkja verkefni þar sem markaðsaðilar eru eða ætla að bjóða upp á háhraðatengingar en stjórn Fjarskiptasjóðs vinnur nú að því að greina nákvæmlega á hvaða svæðum þessi svokallaði markaðsbrestur vegna fjarskiptaviðskipta er. Í öðru lagi verður öllum sem uppfylla ákveðin skilyrði að gefast kostur á að bjóða í verkefnið, þ.e. viðhafa útboð enda er kveðið á um það í reglugerð um stjórn Fjarskiptasjóðs að stjórnin skuli ákveða framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sitt og fjarskiptaáætlunar að undangengnu útboði. Í þriðja lagi verður útboðið að vera tæknilega óháð.

Staðan á verkefninu nú er sú að verið er að leggja lokahönd á að greina þau svæði á landinu þar sem ekki verður ráðist í uppbyggingu á markaðsforsendum, þ.e. þar sem aðilar ætla ekki að bjóða upp á háhraðatengingar. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu þeirrar greiningar er fjöldi lögbýla án háhraðatenginga í dreifbýli um 1.600 og í þéttbýli um 70. Samtals er talið að á þessum stöðum búi um 6.300 manns. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun úthlutað umsóknum um heimildir til notkunar á tíðnum fyrir háhraðaaðgangsnet í kjölfar útboðs nú í sumar en í útboðinu er gert ráð fyrir að boðin yrði háhraðagagnaflutningsþjónusta að þeim aðgangsnetum sem byggð verða á þeim svæðum sem bjóðendur hyggjast veita þjónustu á. Samkvæmt útboðslýsingu áttu umsækjendur m.a. að tilgreina í hvaða sveitarfélögum þeir hefðu í hyggju að veita þjónustu. Um 800 þeirra lögbýla sem nú eru án háhraðatengingar eru inni á þeim svæðum, sem er mikilvægt að átta sig á, sem bjóðendur hyggjast veita þjónustu á. Þannig má gera ráð fyrir að fjöldi lögbýla sem Fjarskiptasjóður þarf að standa straum að uppbyggingu á sé rúmlega 800.

Þá er hafin vinna við að skilgreina gæðakröfur, þ.e. skilgreina lágmarksgæði þeirra lausna sem sjóðurinn ætlar að styrkja en mikilvægt er að við uppbyggingu sé horft til framtíðar þannig að þær kröfur sem gerðar verða þegar verkið er boðið út sé í samræmi við þá þróun sem talið er að verði í notkun netsins um næstu framtíð. Þá er verið að skoða í samvinnu við Ríkiskaup hvaða útboðsleið hentar best fyrir þetta verkefni. Eins og hér hefur verið farið yfir er um að ræða stórt og flókið verkefni og er stjórn Fjarskiptasjóðs að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu áður en útboð á háhraðatengingum á þeim svæðum þar sem ekki verður ráðist í uppbyggingu á markaðsforsendum verður auglýst.

Þetta tel ég að séu mikilvægustu atriðin til að svara fyrirspurn hv. þingmanns. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu verkefni. Það sýnir þann skilning sem þingmenn hafa á því hversu mikilvægt er að byggja upp fjarskiptakerfin í landinu. Við þurfum að sameinast um að tryggja það að þessi framvinda verði á þeim nótum sem stjórn Fjarskiptasjóðs hefur lagt upp með.