133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

háhraðanettengingar.

147. mál
[14:52]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki ósvipuð fyrirspurn og við ræddum áðan, sem var fyrirspurn frá mér. Það er hárrétt að við þingmenn allir höfum áhuga á að þetta gangi hratt fyrir sig og við erum nokkrir frekar óþolinmóðir yfir hvað þetta gengur hægt, vegna þess að nú er árið 2006 og eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar þá eru 20 þúsund landsmenn sem eiga ekki aðgang (Samgrh.: Það er rangt.) í þessu í dag eins og hér kemur fram. Þeir eru fjölmargir. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvort til greina kæmi að endurgreiða sveitarfélögunum og það virðist ekki vera og ég er óánægður með að sú leið skuli ekki vera valin. Sveitarfélögin geta uppfært útboðsskilmálana með því að bjóða út sjálf eða leggja út fyrir þessu og Fjarskiptasjóður komið seint og um síðir og lagt út fyrir því til sveitarfélaganna. Það væri eðlilegur framgangsmáti, virðulegi forseti. Og ég spyr enn einu sinn: Af hverju áttu íbúar Hríseyjar, sem gátu ekki beðið og vildu ekki bíða, að leggja út fyrir þessu sjálfir meðan íbúarnir í næsta byggðarlagi, Dalvíkurbyggð, fengu þetta beint frá ríkissjóði?