133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[15:09]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom kostar vegabréfið 5.100 kr. Mér skilst að það kosti 2.500 kr. að fara til ljósmyndara og láta taka af sér mynd og ef menn kjósa að greiða þann kostnað og láta taka af sér mynd þar með þeim búnaði sem ljósmyndarinn hefur hafa þeir fulla heimild til þess. Ljósmyndarinn getur sent hana með rafrænum hætti til sýslumannsins og síðan er það sannreynt þegar komið er á sýsluskrifstofuna að um sama mann sé að ræða. Þetta er hægt að gera. Ég tel að þetta sé þjónusta við neytendur. Á þriðja tug þúsunda manna hafa nýtt sér þessa þjónustu og þetta hefur gengið frábærlega vel. Að gera þetta tortryggilegt á þeim forsendum sem hér er gert eru einhver annarleg sjónarmið sem ég átta mig ekki á, því að þetta lá allt fyrir þegar málið var rætt á þinginu síðastliðið vor. Þetta var rætt við ljósmyndara að viðstöddum fulltrúa Samtaka iðnaðarins þegar lagt var upp í málið á þennan veg þannig að það kemur ekkert á óvart. Það sem kemur mér á óvart er hins vegar að ljósmyndarar virðast hafa skipt um skoðun eftir að þetta kemur til framkvæmda og fara í dómsmál. Við skulum sjá hvað kemur út úr því máli og hver reynslan verður af því og þá reynir á hvort það megi gera þetta eða ekki.