133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:14]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Alþingi hefur þegar samþykkt að unnið skuli að miðlun upplýsinga um símhleranir af sérstakri nefnd og veitti henni víðtækt umboð með nýsamþykktum lögum. Auk þess hefur Þjóðskjalasafn nú birt á vef sínum þau gögn sem eru í vörslu safnsins er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum. Ég er þeirrar skoðunar að þessi mál séu í réttum farvegi og slíkum sagnfræðilegum rannsóknum sé best fyrirkomið hjá fræðimönnum. Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni að öll opinber gögn eigi að vera aðgengileg. Hér ber þó að virða ákveðin mörk og í fréttum Ríkisútvarpsins hefur fyrrverandi yfirlögfræðingur hjá Persónuvernd t.d. réttilega bent á að einkalífshagsmunir og almannahagsmunir takist á þegar taka skuli ákvörðun um hvort gögn um símhleranir skuli birt. Þetta sjónarmið kemur líka glögglega fram í þeirri ákvörðun Þjóðskjalasafns að afmá persónugreinanlegar upplýsingar um þá sem hlerað var hjá í samræmi við persónuverndarsjónarmið samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Úrskurði sína um hlerun síma einstaklings byggir dómari á lögum og þeim gögnum og atvikum sem hann metur nægileg. Einstaklingur getur haft af því brýna persónulega hagsmuni að ekki sé fjallað um þá opinberlega, hvorki á Alþingi né annars staðar, að mál hafi verið þannig vaxin að dómari hafi talið nauðsynlegt að heimila hjá honum hlerun. Flestir sjá það í hendi sér að ótækt er að yfirvöld hafi frumkvæði að því að greina opinberlega frá nöfnum þeirra sem koma þar við sögu. Þetta hljóta flestir að skilja, ekki síst þeir sem undanfarið hafa tekið þátt í hleranaumræðu af sérstakri umhyggju fyrir einkalífsvernd þeirra manna sem við sögu komu á kaldastríðsárunum og sættu hlerun á einum eða öðrum tíma.