133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:16]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér hefur gerst alvarlegur atburður. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur neitað að svara fyrirspurn hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Dómsmálaráðherra skýtur sér á bak við að nefnd sé að störfum og þar kunni svonefndir einkalífshagsmunir að stangast á við almannahagsmuni. Þegar um er að ræða að stjórnvöld láti hlera síma alþingismanna fyrir sakir eða fyrir verknað eða ætlaðan verknað sem er af pólitísku tagi og ekki á sviði venjulegra sakamála er ekki um neina slíka einkalífshagsmuni að ræða. Allir þeir hagsmunir sem þar koma við sögu eru almannahagsmunir og dómsmálaráðherra þarf alveg sérstaklega að skýra það fyrir okkur í því embætti sem hann situr hvernig í ósköpunum stendur á því að hann hylmir yfir með lögreglunni og fyrri dómsmálaráðherrum í þessu efni og neitar að svara fyrirspurnum sem bornar eru fram á þinglegum forsendum.