133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér er nú eiginlega alveg lokið eftir þessa framgöngu hæstv. dómsmálaráðherra. Hann hefur manna lengst gengið fram í því að rökstyðja hlerun á símum alþingismanna með því að þeir hafi sætt eða tengst rannsókn á sakamáli. Hann neitar að upplýsa hvaða mál það voru. Hann neitar að upplýsa Alþingi um hvaða menn sættu þeim rannsóknum og hlerunum. Ég veit ekki alveg, virðulegi forseti, hvernig hæstv. dómsmálaráðherra vill skilja við málið. Eiga menn að sitja undir ávirðingum og dylgjum ráðherrans sem situr á upplýsingum og neitar að láta þær af hendi? Það er ekki endilega löngun til að komast í fjölmiðla að vilja fá þær upplýsingar, virðulegi forseti. Mér finnst það vera hálfgerður uppskafningsháttur að bera því við og þeir sem gera það ættu að temja sér meiri háttvísi í sölum Alþingis og meiri virðingu fyrir stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég held, virðulegi forseti, að menn þurfi að taka þetta mál mjög alvarlegum tökum. Það getur ekki gengið til lengdar að Alþingi láti það yfir sig ganga að dómsmálaráðherra ríkisstjórnar beiti sér fyrir því að hlífa þeim sem gerðu rangt í þessu máli. Þeir sem gerðu rangt voru þeir sem létu hlera, ekki hinir sem voru hleraðir. Það á að vera skylda hæstv. ráðherra að upplýsa það þannig að þeir sem sátu undir sök verði hreinsaðir en ekki að viðhalda röngum sakargiftum.