133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:23]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að málið hafi verið tekið mjög alvarlegum tökum af hv. Alþingi með því að samþykkja sérstaka ályktun um málið og hvernig það skuli upplýst og síðan líka að veita þeirri nefnd sem var skipuð á grundvelli þeirrar ályktunar sérstakt umboð með sérstökum lögum. Ég tel því að ekkert vanti upp á að Alþingi hafi tekið þetta föstum tökum. Ég hef stutt þær tillögur allar og legg til að þingmenn fari eftir eigin samþykktum um þessi mál og bíði þeirrar niðurstöðu sem þær rannsóknir munu leiða til.

Ég vil einnig taka fram að talað er um og menn gefa sér að heimild dómara til lögreglu um að beita símhlerunum jafngildi því að símar hafi verið hleraðir. Það liggur ekkert fyrir um það. Þess vegna er þessi fyrirspurn þannig úr garði gerð að það er ekki á neins valdi í raun að svara henni því heimild til hlerunar jafngildir ekki því að sími sé hleraður. Það vita allir sem að þessum málum koma og vilja ræða þau á raunsæjan og sanngjarnan hátt. Menn verða að líta til þess.

Það er líka staðreynd sem ekki verður litið fram hjá að samkvæmt gildandi lögum úrskurða dómarar ekki um heimild til lögreglunnar til hlerana nema þeir telji að það séu nægileg atvik vegna saknæmra mála að úrskurða á þann veg. Þær staðreyndir liggja allar fyrir og verða þingmenn að hafa þær í huga þegar málið er rætt en ekki eitthvert upphlaup eða auglýsingamennsku fyrir fjölmiðla.