133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

merking varðskipa.

237. mál
[15:29]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt að þessi enska áletrun ein saman á skipinu Tý skuli hafa verið máð út og ætlanir uppi um aðra áletrun á því skipi og öðrum. Svo má spyrja sig að því hvort enska sé eina málið sem talað er utan landhelgi Íslands. Ég hygg að það séu reyndar fleiri tungumál.

En aðallega vekur þetta mál athygli á því að við erum ekki með neins konar leiðbeinandi reglur, lög eða annað um notkun tungumála á Íslandi í stjórnsýslunni og víðar á opinberum vettvangi og rétt að minna á mál sem ég flutti með ýmsum góðum mönnum öðrum, m.a. hv. þm. Hjálmari Árnasyni, um að athuga réttarstöðu í íslensku og athuga hvort ætti að gera hana að opinberu tungumáli á Íslandi og hver væri þá staða annarra mála.