133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[15:35]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ekki alls fyrir löngu, þá með tiltölulega skyndilegri ákvörðun, fór varnarliðið frá Íslandi. Það hafði miklar breytingar í för með sér. Í sjálfu sér kom ákvörðunin ekki á óvart en samt gerðist hún líklega hraðar og fyrr en menn höfðu ætlað og varð að nokkru leyti höll fyrir okkur sem þjóð. Hún skapaði nokkur vandamál, þessi skyndilega ákvörðun og þetta skyndilega brotthvarf. Það skapaði ákveðin vandamál fyrir samfélagið á Suðurnesjum því að það hlýtur að hafa samfélagsleg áhrif ef milli 800 og 900 manns missa skyndilega vinnuna. Það urðu áhrif fyrir byggðarlagið í heild sinni en ekki síður hafði það mikil áhrif almennt á varnarstefnu okkar Íslendinga sem auðvitað er útgangspunkturinn í allri umræðu um varnarliðið.

En þessi breyting, eins og allar aðrar breytingar, felur auðvitað í sér tækifæri, tækifæri fyrir okkur sem þjóð, tækifæri fyrir svæðið. Meðal annars má segja að það hafi skapað ný tækifæri fyrir Landhelgisgæsluna. Með brotthvarfi varnarliðsins má segja að Landhelgisgæslan hafi fengið verulega aukið vægi og veigameira hlutverk en hún hafði áður. Það er ákveðið tækifæri fyrir það ágæta starfsfólk sem þar er og tækifæri fyrir okkur að efla sjálfstæði í varnarstarfi okkar.

Hvað varðar byggðarlög á Suðurnesjum opnast þar að sjálfsögðu tækifæri vegna þess að varnarliðið skilur eftir mannvirki, tugi þúsunda fermetra af mannvirkjum sem flest eru núna í eigu íslenska ríkisins. Hins vegar á eftir að finna hlutverk fyrir þessi mannvirki en þau hljóta að skapa tækifæri.

Ég nefndi það hér að Landhelgisgæslan hefði fengið nýtt hlutverk. Sannarlega hefur hún fengið mikið vægi og ég lýsi sérstakri ánægju með það hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hefur haldið utan um þau mál. Ég lýsi líka ánægju með það að við höfum þegar ýmist tekið á leigu eða fjárfest í kaupum á þyrlum, nýju varðskipi og þar fram eftir götunum. Við höfum sem sagt búið okkur undir þessa auknu ábyrgð og hið nýja hlutverk Landhelgisgæslunnar. Það er meira og það er betra en það var.

Þá kemur stóra spurningin sem er kannski kjarninn í því sem ég vildi beina til hæstv. ráðherra: Hvar á að vista Landhelgisgæsluna í þessu nýja hlutverki? Það eru nýjar þyrlur og nýtt varðskip í ljósi vaxandi umferðar á hafinu í kringum okkur. Umræðan hefur snúist um Reykjavíkurflugvöll og Reykjavík sem höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar þar sem hún hefur verið. Ég vil sérstaklega nefna Reykjavíkurflugvöll því að framtíð hans er í óvissu eins og við þekkjum úr umræðunni, bæði hér og í borgarstjórn. Framtíð Reykjavíkurflugvallar er óljós. Það liggur líka fyrir að sá húsnæðiskostur sem Landhelgisgæslan hefur á Reykjavíkurflugvelli er ekki í stakk búinn til að taka við vaxandi umferð, getum við sagt, og þess vegna hljótum við að skoða aðra möguleika í hinni ört vaxandi landhelgisgæslu. Spurningar mínar til hæstv. ráðherra lúta einmitt að því hvort ekki komi til greina að færa starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ég vil færa fyrir því nokkur rök.

Þar er húsnæði til staðar og ég nefni sérstaklega svokallaða byggingu 831 sem gæti þess vegna á morgun tekið við starfsemi Landhelgisgæslunnar, bæði skrifstofuaðstöðu og flugskýlum fyrir flugkost hennar.

Ég vil líka benda á það öryggi og þann búnað sem er á Keflavíkurflugvelli sem er auðvitað meiri og vandaðri en hér. Við þurfum að standa straum af rekstri hans í dag eins og fram hefur komið.

Ég bendi á það að hafnir eru til staðar á Suðurnesjum, fleiri en ein og fleiri en tvær. Ég held að vel megi færa rök fyrir því að í rauninni séu skipin í heimahöfn betur geymd á Suðurnesjum, nær vettvangi, en hér með því að sigla inn Faxaflóann. Með þessu er hins vegar ekki endilega verið að tala um að færa upplýsingamiðstöðina sem er í Skógarhlíð á Suðurnesin. Hún getur að sjálfsögðu verið þar með þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað.

Þess vegna beini ég þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að flytja starfsemi Gæslunnar að hluta til eða öllu leyti til Suðurnesja, hvort það komi til greina að nota byggingu 831 undir starfsemi flugvéla- og þyrlusveita, hvort ráðherrann telji að hafnir á Suðurnesjum geti þjónað sem heimahöfn varðskipanna og hvort hann telji að nýta megi byggingu 831 á Keflavíkurflugvelli undir starfsemi Landhelgisgæslunnar í víðari skilningi.