133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[15:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það var í sjálfu sér fagnaðarefni að herinn skyldi fara úr landi þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir báðir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafi grátbeðið hann að vera kyrran. Hins vegar eru bæði möguleikar og tækifæri og skyldur sem geta falist í því að herinn er farinn og við hér getum axlað á eigin ábyrgð rekstur mannvirkja á Keflavíkurflugvelli sem tilheyra gömlu herstöðinni.

Ég hef t.d. velt því alvarlega fyrir mér hvort ekki ætti að setja upp þarna alþjóðlega eftirlitsstöð með siglingum um Norður-Atlantshafið. Það eru gríðarlegar siglingar með alls konar varning, efni og vörur, sem lítið eftirlit er með. Einnig gæti verið hér staðsett alþjóðleg björgunarmiðstöð, einmitt til þess að sinna flugi og umferð, hvort sem er á lofti eða legi, og þar í gæti legið möguleiki.

Ég vil þó sérstaklega vekja athygli hér á fjárhagsstöðu Landhelgisgæslunnar sem hefur nokkur undanfarin ár þurft að berjast við mikinn halla og rekstrarvanda sem ekki hefur verið tekið á. Mig minnir að rekstrarhallinn eða skuldin hafi um síðustu áramót verið tæplega 170 millj. kr. Engar úrbætur eru á leiðinni í gegnum fjárlög hvað það varðar. Þó að verið sé að setja fjármagn í kaup og leigu á þyrlum og þess háttar er rekstrarvandi Landhelgisgæslunnar áfram óleystur. Ég tel, þó að ekki sé nema í (Forseti hringir.) öryggisskyni, að við ættum að byrja á því að taka til þar og tryggja rekstur Landhelgisgæslunnar (Forseti hringir.) áður en við veltum því fyrir okkur að flytja hana.