133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[16:00]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi hin faglegu rök og þau sjónarmið sem þarf að hafa í huga kom það ekki fram í máli mínu að þegar ég spyr Landhelgisgæsluna um þessi mál kemur m.a. fram að fyrir liggi upplýsingar frá Veðurstofu Íslands um að skilyrði til neyðarflugs séu mun lakari á Miðnesheiði en í Reykjavík. Það eru svona þættir sem þarf líka að líta til. Ég rakti það ekki í máli mínu og minntist ekki á það að það ætti að stækka flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Það er skrifstofuaðstaða sem er verið að ræða um við Flugmálastjórn á Reykjavíkurflugvelli.

En hvað um það, ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og gefa þingmönnum tækifæri til að ræða þessi mál. Ég tel að forgangsverkefnin hjá Gæslunni séu önnur en að fara í þennan flutning en eins og ég sagði útiloka ég hann alls ekki. Raunar hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið lagt sig fram um það að vinna með yfirvöldum á Suðurnesjum. Við höfum gert þar samning um hælisleitendur, flutt útgáfu vegabréfa þangað og lagt fram hugmyndir um að Lögregluskólinn eða Löggæsluskóli Íslands verði starfræktur á Keflavíkurflugvelli. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir stuðning hans við það mál og líka við þá hugmynd sem býr þar að baki, að þar verði víðtækari þjálfunarmiðstöð fyrir þá sem sinna öryggisgæslunni. Eins og hann sagði réttilega er Keflavíkurflugvöllur sá staður sem er kannski viðkvæmastur fyrir okkur þegar litið er til öryggismálanna og við þurfum að koma þar fyrir starfsemi á vegum ríkisins sem sinnir öryggismálum. Ekkert er betur til þess fallið að mínu mati en t.d. Löggæsluskólinn með þjálfunarbúðum sínum og öðru slíku. Einnig hefur verið rætt um að við þurfum að þjálfa hér varalið og það gæti líka komið inn í þetta.

Við höfum vissulega augastað á þeim möguleikum sem þarna eru, útilokum ekkert í þeim efnum og væntum góðs samstarfs við heimamenn um það.