133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

öndunarvélaþjónusta við MND-sjúklinga.

109. mál
[18:09]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir svörin. Ég vil samt ítreka að eins og þjónustan er á Norðurlöndunum er, fyrir utan öndunarvélarnar, um heimaþjónustu að ræða. Tveir til þrír starfsmenn fylgja hverjum einstaklingi og það eru ekki heilbrigðisstarfsmenn heldur starfsmenn á vegum félagsþjónustunnar. Ég fagna því að koma eigi þessari þjónustu á en til þess að svo megi vera, að einstaklingar geti þá verið heima, þarf að tryggja félagsþjónustunni meira fjármagn, eyrnamerkja framlög til þessara einstaklinga þannig að það verði ekki íþyngjandi þjónusta fyrir sveitarfélögin að taka þetta að sér.