133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

öndunarvélaþjónusta við MND-sjúklinga.

109. mál
[18:11]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Ég vil taka undir og þakka hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni, fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál hér á þingi. Ég fagna sérstaklega svari hæstv. heilbrigðisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur því að ég tek undir að þetta er mikilvægt mál og mikið framfaramál og hefur verið eitt helsta baráttumál forsvarsmanna MND-félagsins á síðustu árum. Þeir hafa svo sannarlega unnið í samvinnu við stjórnvöld um hvernig best væri að þoka þessum málum áfram. Algjör forsenda þess að okkur takist að ná fram þessum brýnu bótum á þjónustunni er að félagsmálayfirvöld og heilbrigðisyfirvöld vinni náið saman og ég heyri að það er unnið að því.

Mér finnst mikilvægt að samstaða náist um málið. Það veitir manni svo sannarlega aðra sýn á lífið að kynnast forsvarsmönnum MND-félagsins og þeim ágæta manni Evald Krog sem heimsótt hefur Ísland nú í að minnsta kosti tvö skipti. Það að hafa þetta val um þjónustu og val um þær leiðir sem maður fer í lífinu skiptir höfuðmáli í þessum efnum.