133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ.

119. mál
[18:24]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það sem skiptir máli við uppbyggingu hjúkrunarrýma er þetta: Í fyrsta lagi liggur fyrir að innan skamms verður hafist handa við að byggja 200 ný hjúkrunarrými í Reykjavík, 110 rými við Suðurlandsbraut og 90 rými á svokallaðri Lýsislóð. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur síðan lýst því yfir nýlega að til standi að byggja 174 ný hjúkrunarrými, þar af 20 í Mosfellsbæ. Því er ljóst að fram undan er stórkostleg uppbygging á hjúkrunarrýmum í Mosfellsbæ, víðar í Suðvesturkjördæmi, hér á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði og fleiri stöðum.

Það er ljóst að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. heilbrigðisráðherra standa sig gríðarlega vel í þessum efnum.