133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ.

119. mál
[18:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég heyri að hv. þingmaður talar í sama anda og sveitarstjórnin í Mosfellsbæ, þar sem menn eru fullir bjartsýni og ánægðir með þessa ákvörðun. Þeir eru komnir á fullt í að undirbúa hvernig eigi að standa að þessu með okkur.

Ég vil taka fram að við ræddum um hjúkrunarrými almennt í fyrirspurnatíma fyrr á árinu, í vor. Það var löngu áður en niðurstaðan varð ljós úr samstarfi okkar við Landssamband eldri borgara í nefnd Ásmundar Stefánssonar. Sú niðurstaða varð til þess að við fengum inn aukið fé til uppbyggingar á þessum rýmum. En þá dró ég fram að búið væri að byggja í kringum 3 þús. hjúkrunarrými, það fer eftir því hvernig þau eru skilgreind. Fjöldi þeirra er hins vegar öðru hvoru megin við töluna 3 þús. í dag og þá sagði ég að við værum líklega búin að byggja upp um 88% af þeim rýmum sem við þyrftum og byggja þyrfti um 12% í viðbót. Ég nefndi þá að við þyrftum að byggja 370–380 ný rými á næstunni. Við erum einmitt að gera það. Það er erfitt að áætla þetta en við áætlum að með þeim rýmum sem við byggjum upp á næstu fjórum árum, sem eru 374 nákvæmlega, 200 í Reykjavík og 174 í nágrannasveitarfélögunum, Selfossi, Reykjanesbæ og Ísafirði, þá náum við líklega að anna eftirspurninni, að því gefnu að við aukum heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu sem við ætlum að gera og fjármagn hefur verið tekið til hliðar fyrir.

Þar með er þó ekki sagt að verkefnið sé búið. Síðar þarf að endurbyggja gömul rými sem eru óhentug í dag, þar sem eru fjölbýli og rými með salerni á gangi en ekki inni í rýminu sjálfu o.s.frv. Verkefnið er því ekki búið þrátt fyrir að við sjáum fram á að endar nái saman í fjölda rýma.