133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

námsframboð í loðdýrarækt.

241. mál
[18:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í ræðustól til að bera fram munnlega fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um loðdýrarækt.

Forsaga þessa máls er sú að ég og formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, vorum viðstaddir aðalfund Sambands loðdýrabænda sem haldinn var í Ölfusi í Árnessýslu fyrir nokkrum vikum. Þar urðum við þess áskynja að það gengur afskaplega vel í loðdýraræktinni í dag, sérstaklega í minkaræktinni. Þessar fréttir hafa síðan verið staðfestar í fjölmiðlum undanfarið.

Ég er hérna til að mynda með fyrir framan mig, virðulegi forseti, nýjasta eintakið af hinu ágæta málgagni bænda, Bændablaðinu. Þar er frétt á baksíðunni með svohljóðandi fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Meðalminkabú veltir um 20 milljónum og afkoman hefur aldrei verið betri en nú. Verð á skinnum hækkar og fóðurkostnaður fer lækkandi.“

Þarna kemur fram nákvæmlega það sama og okkur, mér og hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, var sagt frá á þessum aðalfundi Samtaka loðdýrabænda, að skinnaverð á minkaskinnum er í hæstu hæðum og er í raun og veru miklu hærra en nokkurn mann hafði þorað að óra fyrir.

Á sama tíma hefur átt sér stað mikil umbylting í greininni, allri skipulagningu hennar. Svo virðist sem menn hafi nú náð virkilega góðum tökum á minkarækt hér á landi. En eins og öllum er kunnugt um gekk þessi grein í gegnum miklar hremmingar á 9. áratugnum, ekki endilega vegna þess að menn kynnu ekki að stunda þennan búskap, heldur kannski frekar vegna þess að óheppilegar markaðsaðstæður komu í bakið á mönnum í kjölfar mikillar uppbyggingar sem varð í greininni.

En eins og ég segi. Menn lærðu af þeirri reynslu og síðan hafa menn unnið hörðum höndum að því að festa greinina í sessi, tekið allt til endurskoðunar, skipulagt hana upp á nýtt, skipulagt rekstur fóðurstöðvanna. Það hafa komið fram ákveðnir kjarnar víða um land þar sem minkarækt er stunduð.

Í framhaldi af þessu langar mig til að grennslast fyrir um það hjá hæstv. ráðherra hvaða námsframboð sé í loðdýrarækt í Landbúnaðarháskóla Íslands eða Hólaskóla. Og hvort það standi þá í framtíðinni til að auka möguleika á slíkri menntun fyrir þá sem vilja þessari stórmerkilegu atvinnugrein vel.