133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

námsframboð í loðdýrarækt.

241. mál
[18:31]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ummælin um loðdýraræktina og fyrirspurnina. Það er rétt sem hv. þm. segir hvað loðdýraræktina varðar, hún hefur gengið í gegnum breytta stöðu á síðustu árum og batnandi en þeim búum sem eftir eru hefur gengið mjög vel og þeir bændur hafa staðið mjög vel að sínum málum.

Þeir hafa náð árangri þrátt fyrir t.d. þá bágu stöðu dollarans sem hér hefur verið síðustu árin. Þetta er því mikill viðsnúningur og gefur ný tækifæri í búgreininni sem er alþjóðleg. Því var spáð í upphafi og ætlun okkar Íslendinga var að við byggjum yfir mikilli sérstöðu hvað þessa búgrein varðar, bæði vegna veðurfars og fóðurgerðar. Þannig að þetta eru gleðilegar fréttir.

En hv. þingmaður bar fram tvær spurningar, í fyrsta lagi:

„Hvaða námsframboð er í loðdýrarækt í landbúnaðarháskólunum?“

Það er frá því að segja að í starfsmenntanámi til búfræðináms við Landbúnaðarháskóla Íslands er tveggja eininga valáfangi sem nefnist annað búfé. Þar er loðdýrarækt gerð nokkur skil. Auk þess hefur verið boðið upp á sérstakt tveggja eininga valnámskeið í loðdýrarækt eingöngu þegar eftirspurn hefur verið eftir slíku námi. Þetta námskeið hefur ekki verið kennt nýlega þar sem eftirspurn eftir faginu hefur legið niðri um nokkurt skeið. Nú kann það að breytast við þessar aðstæður sem ég kem kannski nánar að hér síðar.

Þá annast Landbúnaðarháskólinn efnagreiningar á loðdýrafóðri fyrir fóðurstöðvarnar og gefur leiðbeiningar um úrbætur ef gæðum fóðursins er ábótavant. Landbúnaðarháskóli Íslands heldur því utan um þennan grundvallarþátt greinarinnar og er þar með í ríku sambandi við bændur loðdýraræktarinnar. Önnur spurning hv. þingmanns er:

„Stendur til að auka möguleika á slíkri menntun?“

Ekki er áformað að auka möguleika á þessu námi sérstaklega umfram það sem verið hefur. Það ræðst af eftirspurn hvaða valnámskeið eru kennd hverju sinni. Skólinn hefur á að skipa sérfræðiþekkingu á sviði loðdýraræktar og bregst við með því að bjóða valnámskeið þegar eftirspurn vaknar og nægilega margir nemendur fást í reglubundna kennslu í faginu. Þetta eru svör við spurningum hv. þingmanns.

Loðdýrabændur, ásamt öflugum ráðunaut þeirra hjá Bændasamtökum Íslands, hafa farið í gegnum markvissa endurskipulagningu á síðustu árum, eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Gæðastýringu hefur verið komið á á mörgum sviðum til þess að efla búin, hagræða og setja þau í fremstu röð og reyna að ná því marki sem er svo mikilvægt, að standast samkeppnina sem fram fer erlendis. Þeir hafa hugað mjög að kynbótum og öllum þáttum sem snúa að greininni.

Síðan hafa þeir auðvitað ekki síst nýtt mjög vel þann litla stuðning sem ríkisvaldið hefur látið greininni í té. Það eru orðin allmörg ár síðan aftur var gerður samningur af hálfu ríkisstjórnarinnar við loðdýrabændur sem kemur hérna í gegnum þingið, smástuðningur. Sá stuðningur hefur verið notaður mjög vel og skynsamlega í fagmálefni greinarinnar.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hefur afkoma minkabænda verið vel viðunandi. Síðustu tvö ár hafa verið bændum í greininni afar hagstæð, segir í því sama blaði og hv. þingmaður las hér upp úr. Verð á skinnum hefur sjaldan eða aldrei verið hærra. Fóðurkostnaður hefur lækkað umtalsvert og þar með rekstrarkostnaður búanna. Þá hafa íslenskir bændur náð góðum tökum á framleiðslunni og eru nú í hópi þeirra sem best standa að málum sínum.

Þeir hafa unnið mjög mikið með danska uppboðshúsinu sem hefur skilað þeim miklu. Í kjölfar alls þessa sér Samband íslenskra loðdýrabænda nú fyrir sér frelsi til að reka stór og öflug bú á þessu sviði, sem ekki var til staðar áður, og að miklir möguleikar séu á að efla búgreinina, fjölga bændum í þessari grein landbúnaðarins og þá mun námsáhuginn kvikna (Forseti hringir.) og Landbúnaðarháskólinn mun auðvitað bregðast við því.