133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

námsframboð í loðdýrarækt.

241. mál
[18:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Við skulum vona að svo verði, að námsáhuginn kvikni þegar vel fer að ganga í greininni. Ég tel nefnilega að þessi grein, loðdýraræktin, og þá sérstaklega minkaræktin sem gengur svo vel núna sé á margan hátt afskaplega merkileg og spennandi atvinnugrein. Þetta er á vissan hátt eins og besta sorpeyðing sem við getum fundið, ef svo má segja, þ.e. fóðurgerðin sjálf þar sem við nýtum fæðu sem annars hefði jafnvel hugsanlega þurft að urða og eyða, við nýtum þetta til verðmætasköpunar og til mikillar verðmætasköpunar nú um stundir eins og markaðsaðstæðum er háttað.

Það mætti því ímynda sér að þetta kallaði á aukna uppbyggingu í greininni, að menn sæju sér leik á borði að fara út í þennan rekstur í auknum mæli. Þetta er mjög byggðavæn atvinnugrein, ef svo má segja.

Því held ég að það sé afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að stjórnvöld séu á verði og fylgist grannt með þróuninni. Og vil nota tækifærið til að hvetja landbúnaðarráðherra sem ber ábyrgð á menntun í landbúnaði hér á landi, hvetja hann til að vera vel á vaktinni og sjá til þess ef merki berast um að aukin eftirspurn sé eftir þessu námi, að þá verði brugðist bæði vel og hratt við. Þannig að við þurfum ekki að líða fyrir þekkingarskort ef einhverjir vilja kynna sér betur þessa grein og mennta sig í þessari tilteknu búfjárrækt.

Það væri því gaman að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann gæti hugsað sér, ef fram kæmu beiðnir um slíkt, að veita meira fé til þess að byggja upp menntun í loðdýrarækt hér á landi umfram það sem við höfum í dag.