133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fæðingarorlof.

323. mál
[18:49]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Inga Hrafnssyni fyrir að taka upp málefni Fæðingarorlofssjóðs og hæstv. ráðherra fyrir hans jákvæðu undirtektir í málinu. Fæðingarorlofskerfið er fyrir löngu búið að sanna tilvist sína og þær breytingar sem gerðar voru á því árið 2004 eru núna að koma fram. Ég tel að menn séu að ná miklum árangri hvað varðar fjárhag sjóðsins og þá verður líka tækifæri til að stíga næstu skref í þróun þjónustunnar.

Ég held að Fæðingarorlofssjóðurinn og að koma honum á hafi verið eitt merkasta framlag okkar til jafnréttisbaráttunnar og er merkilegt að 90% feðra skuli nýta sér sjóðinn. Það sést líka á umræðunni nú um fyrirspurnina sjálfa að það eru þrír karlmenn sem virðast ætla að taka þátt í umræðunni og ein kona. Það er því greinilega mikill áhugi á málinu. Auðvitað vildu allir Lilju kveðið hafa, og þurfum við ekki að gleyma afstöðu ungra sjálfstæðismanna í málinu á sínum tíma, sem ekki aðhylltust stefnu okkar framsóknarmanna sem börðust hatramlega fyrir því að koma þessu máli í gegn. En nú eru þeir orðnir allir sammála um sjóðinn og ágæti hans og tel ég brýnt að við höldum áfram þróun hans með því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og koma enn frekar til móts við barnafjölskyldur í landinu.