133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:28]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingflokksformaður Hjálmar Árnason stóðst ekki lestrarprófið áðan. Nú stenst hann ekki staðreyndaprófið. Þingmaðurinn fer einfaldlega rangt með.

Ég gat þess áðan að atkvæðagreiðslan um ábyrgðina á lánum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar hefði farið 9:5 í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar átti ég eitt atkvæði af þessum níu. Ef ég hefði ekki greitt atkvæði með Kárahnjúkavirkjun hefðu atkvæðin fallið 8:6 væntanlega. Þá hefði ég verið á móti og þá hefði farið 8:6. Atkvæði mitt, þótt mikilvægt sé, hafði ekki meiri þyngd en atkvæði annarra sem þarna tóku þátt.

Það er alveg rétt að í borgarstjórn Reykjavíkur var lántakan samþykkt. Það er líka alveg rétt að í þingflokki Samfylkingarinnar greiddu 14 þingmenn atkvæði með Kárahnjúkavirkjun. En það er bara algjört aukaatriði í því máli sem snýr að framtíðinni. Við höfum aldrei skorast undan ábyrgð varðandi Kárahnjúkavirkjun. Ábyrgðin núna snýr hins vegar að framtíðinni.

Ef menn ætla að halda áfram á sömu braut, ef menn geta ekki einu sinni snúið frá villu síns vegar frekar en hv. þingflokksformaður Hjálmar Árnason, stefnir bara í eina átt. Þá stefnir í að við förum fram úr þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Ef Helguvík, Straumsvík og álver fyrir norðan verður allt saman að veruleika förum við fram úr okkar alþjóðlegu skuldbindingum og það er verkefnið sem við stöndum andspænis í dag, hv. þm. Hjálmar Árnason.