133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:35]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var merkilegt að hlusta á hv. þingmann spyrja á hvaða forsendum ætti að taka varnarsamninginn til skoðunar þegar hér verður skipt um ríkisstjórn. Eins og ég sagði áðan áskiljum við okkur auðvitað allan rétt til þess enda, eins og kom fram í frammíkalli hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, lágu forsendurnar fyrir þeim varnarsamningi sem endurnýjaður var núna og þeirri varnaráætlun sem honum liggur til grundvallar aldrei fyrir af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það er búið að setja hér upp varnaráætlun, að vísu leynilegt plagg, varnaráætlun, en það hefur aldrei verið skilgreint gegn hvaða vá á að verjast. Hver er váin? Er það innrás óvinveittra ríkja? Hver er váin sem þessi varnaráætlun er viðbragð við? (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið skilgreint af hálfu þeirrar — (Gripið fram í: … nýjan herafla.) Það hefur ekki verið skilgreint, virðulegur forseti, af hverju varnaráætlun, sem er leyniplagg, hefur verið gerð, gegn hvaða vá hún er. Það er auðvitað frumforsenda þess að vera hér með varnaráætlun og varnarsamstarf að menn skilgreini vána sem að okkur steðjar. Það er fyrst núna þegar þessi endurnýjaði samningur var gerður sem menn ætla að setja niður nefnd um öryggismál til að skilgreina vána. Utanríkisráðherra talar um það í ræðu sinni núna að setja upp sérstaka stofnun til að huga að þessum málum. Það er dálítið seint í rassinn gripið að gera það núna eftir allan þennan tíma og eftir að vera búinn að gera varnarsamning og varnaráætlun sem byggir ekki á neinu skilgreindu mati á vánni. Við skulum láta það fara fram fyrst.