133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:03]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem alveg tekið undir það að full ástæða er til að skoða veiðarfæranotkunina og hvernig veiðarfæri hafa verið notuð. Umræðan sem núna fer fram, sem mér skilst að eigi að hefjast í dag eða á morgun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um hugsanlegt botnvörpubann, er á margan hátt mjög áhugaverð umræða. Hún er líka á margan hátt mjög hættuleg umræða.

Það sem ég er kannski fyrst og fremst að reyna að benda á er að þó að við getum deilt á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu um hvaða aðferðir við Íslendingar notum við nýtingu á fiskstofnum okkar þá held ég að við þurfum að fara mjög varlega og vera mjög á varðbergi gagnvart síauknum tilhneigingum utanaðkomandi afla. Sumir sigla undir flaggi náttúruverndar, aðrir sigla undir ýmsum pólitískum flöggum en þessi öfl eiga mörg hver það sameiginlegt að vilja seilast til áhrifa og afskipta af því hvernig við Íslendingar nýtum nytjastofna okkar. Við þurfum að vera á varðbergi gagnvart því. Í gangi er mjög markviss og oft og tíðum mjög lævís áróður gegn fiskveiðum almennt og ég hygg að sú skýrsla sem allt of margir því miður hér á Íslandi hafa tekið svo allt of hátíðlega sé meiður af slíkri tilhneigingu. Við sjáum þá tilhneigingu líka varðandi hvalveiðarnar þar sem erlend öfl þykjast geta ráðskast með okkur Íslendinga og sagt okkur fyrir verkum hvernig við eigum að nýta hvalastofna umhverfis landið.

Þetta er náttúrlega allt saman á valdi okkar Íslendinga sem fullvalda þjóðar og við eigum að halda mjög fast í það og ekki hvika frá neinu varðandi það. En að sjálfsögðu eigum við að taka tillit til umhverfismála varðandi nýtingu en ákvarðanir í þeim efnum eigum við fyrst og fremst að taka sjálf á okkar eigin forsendum.