133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú bara til að enginn misskilji neitt upplýsa að tvö skilyrði þarf til þess að ég sæki um þetta starf, þ.e. að Færeyjar séu orðnar fullvalda ríki, sjálfstætt. Ég er einlægur stuðningsmaður þess. Ég held að það væri gott fyrir Færeyjar og gott fyrir Ísland að það gerðist en auðvitað er það ákvörðun Færeyinga sjálfra — og svo að sjálfsögðu að við værum þá að tala um fullgilt sendiherraembætti þar.

Ég tek svo bara fram að ég tel að við eigum að fylgja þessu eftir með því að stofna sambærilega skrifstofu á Grænlandi. Það hlýtur að vera eðlilegt enda höfum við ekki gert greinarmun yfirleitt á færeysku og grænlensku samstarfi. Við erum jú saman í Vestnorræna ráðinu og mér finnst eðlilegt að við hugum að því í framhaldinu að sams konar skrifstofa verði opnuð í Nuuk.

Ég bara endurtek það sem ég sagði: Menn eins og Colin Powell eru menn að meiri. Menn vaxa af því að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar á þeim. Þeir eiga enn þann kost Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Þó þeir séu horfnir af vettvangi stjórnmálanna þá ættu þeir enn þann kost að vaxa af því og verða menn til þess að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar. Ríkisstjórnin sem situr í dag á hins vegar að framkvæma stefnubreytinguna og lýsa henni yfir. Það er hægt að draga Ísland formlega út af þessum lista. Hann er í sjálfu sér til. Hann er efnislegur. Þá mundu menn framvegis verða að vitna til hans á spjöldum sögunnar með því að taka fram að Ísland hefði fallið frá stuðningi sínum við þessar aðgerðir og gert það opinbert. Það dugar ekki sem hv. þingmaður var hér að vitna í að fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson hafi gert. Það dugar ekki. Það er aumlegt yfirklór að ætla að reyna að bjarga sér þannig eins og hann og reyndar fleiri hafa gert í þessu máli.

Í sambandi við Ísrael að lokum þá er það að sjálfsögðu þannig að á meðan menn eiga stjórnmálaleg samskipti við ríki og á meðan menn hafa ekki bara gefist upp á þeirri leið þá eiga menn að nota þau að sjálfsögðu. Ég er sammála hv. þingmanni um það. En ég held því jafnframt fram, og það er þannig samkvæmt alþjóðalögum, (Forseti hringir.) að stjórnmálaleg einangrun er eitt úrræði sem er (Forseti hringir.) þekkt og hefur verið beitt.