133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektirnar. Ég held að það gæti verið spennandi að setja í gang skoðun á því hvort þetta gæti pólitískt og efnislega orðið að veruleika. Maður sér það fyrir sér að þetta gæti með einhverjum hætti sprottið upp frá smáríkjastofnun sem er starfrækt við Háskóla Íslands. Þar er líka Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, sem sérstaklega helgar sig baráttu fyrir verndun tungumála og minni menningar- og málsvæða. Ýmsir fleiri gætu þar lagt saman kraftana. Síðan þyrfti að kynna þessa hugmynd og vinna brautargengi á alþjóðavettvangi. Ég er viss um að á því eru ýmsir möguleikar.

Varðandi mengunina á Suðurnesjum og samning sem þáverandi utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson átti aðild að, sem er í grunninn milli hersins og sveitarfélaga á Suðurnesjum, um nýtt vatnsból í stað hins gamla sem herinn hafði mengað þá var sá samningur aldrei kynntur í ríkisstjórn. Ég tók mig til og fletti fundargerðum ríkisstjórnar frá þessum tíma til að taka af allan vafa um það. Hann var hvergi borinn upp eða kynntur í ríkisstjórn þegar hann var gerður og því á ábyrgð þess ráðherra sem hann gerði.

Ég er ekki að hlaupast undan því að hafa setið í þeirri ríkisstjórn sem gerði mjög margt gott, eins og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um, t.d. að endurreisa atvinnulífið úr þeim brunarústum sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi það eftir í þegar hann hljópst frá verkinu á haustmánuðum 1988.

Sá samningur er bölvaður, það er alveg rétt. Það var slæmt að hann skyldi gerður eins og hann var gerður. En hann fylgir því fordæmi, sem varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins hafði iðulega áður sýnt, að leysa Kanann undan öllum skyldum, t.d. á Heiðarfjalli, sem er öllum til skammar, að síðan skuli landeigendur þar sitja uppi með mengunina og ruslahaugana, að þeir séu þar í leyfisleysi og í raun ólöglega á landi í einkaeign.

En samningurinn suður frá leysti Bandaríkjamenn aðeins undan grunnvatnsmengun á því svæði sem hann tók til vegna gamla vatnsbólsins (Forseti hringir.) en ekki mengun að öðru leyti.