133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:32]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að við lifum á tímum mikilla breytinga í alþjóðamálum. Breytingarnar eru svo miklar að landakort sem voru góð og gild fyrir 20 árum eru óþekkjanleg í dag. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar, kalda stríðinu er lokið. Við lifum á tímum samruna í Evrópu, við lifum á tímum nýrra ógna eða vaxandi ógna hryðjuverka, eiturlyfja og svæðisbundinna átaka. Við lifum á tímum þar sem fátækt og misskipting eru áberandi í stórum heimshlutum, við lifum á tímum þar sem heimurinn er að þjappast saman vegna þeirrar byltingar sem orðið hefur í fjarskiptum.

Eins og ég nefndi er kalda stríðinu lokið og ég vil alltaf miða það við fall Berlínarmúrsins haustið 1989. Þegar kalda stríðinu lauk varð breyting á stöðu Íslands. Sú mikla breyting er eiginlega innsigluð á þessu ári með brottför bandaríska hersins frá Miðnesheiði. Brottför bandaríska hersins stafaði m.a. af, þótt um það megi deila hvernig það bar að, breyttu mati Bandaríkjamanna á stöðunni á Norður-Atlantshafi, að þar væri ekki ástæða til að óttast hefðbundin hernaðarleg átök og þess vegna væri ekki þörf á að hafa herstöð hér á landi.

Það er auðvitað fagnaðarefni að svo friðvænlega horfi hér í þessum heimshluta hvað sem menn segja um viðskilnað og brottför hersins að öðru leyti. Hins vegar er langt frá því að það horfi friðvænlega í heiminum og svæðisbundin átök eru skelfileg, einkum í Írak og fyrir botni Miðjarðarhafs og í Afganistan, og þessi átök eru vegna fjarskiptabyltingarinnar meira og minna inni í stofu hjá almenningi í heiminum.

Það hefur orðið breyting á stöðu Íslands. Við höfum ekki lengur það hernaðarlega og landfræðilega mikilvægi sem við höfðum áður. Við erum ekki lengur flugvélamóðurskip í miðju Atlantshafi, sá tími er liðinn. Breyting hefur orðið á varnarsamstarfi okkar við Bandaríkin, samþykktur var samningur þar að lútandi síðastliðið sumar. Ég var því fylgjandi að fara þá leið að breyta varnarsamningnum að þessu leyti, en ég er eindregið á því að traust aðild okkar að NATO og þátttaka okkar í þeim skyldum sem henni fylgir sé nauðsynlegur þáttur varnarstefnu okkar.

Hins vegar krefjast þessar breytingar í veröldinni þess að við setjum aukinn kraft í verkefni á borð við friðargæslu og þróunarhjálp. Það er fagnaðarefni að utanríkisráðherra hefur boðað slíkt og hún kynnti það m.a. í utanríkismálanefnd nú í vikunni að þessi mál séu til sérstakrar skoðunar í utanríkisráðuneytinu, reyndar er það boðað með nýjum fjárlögum að efla eigi fjárlög til þróunarhjálpar. Ég vil eindregið lýsa stuðningi við þessi áform utanríkisráðherra og tel það mikið fagnaðarefni að sú ákvörðun hefur verið tekin að fara bæði yfir skipulag þróunaraðstoðarinnar og skipulag friðargæslunnar, fara m.a. yfir það hvar við getum lagt mest af mörkum, hvernig við getum orðið að liði við að berjast gegn fátækt og misskiptingu. Ég tel að við getum jafnframt hefðbundinni þróunarhjálp orðið að liði í því að byggja upp innra skipulag þjóðanna því að það er almennt viðurkennt, og hinir þekktustu hagfræðingar eru farnir að viðurkenna það að ekki er nóg að byggja upp efnahaginn, það verður líka að byggja upp öflugt velferðarkerfi ef einhver árangur á að nást.

Við getum t.d. byggt upp aðstoð í heilbrigðismálum þar sem plágur á borð við alnæmi eða aids og malaríu herja. Sum löndin eru það fátæk og almenningur þar svo illa staddur að hann hefur ekki einu sinni efni á að fá sér flugnanet til varnar gegn malaríu. Þarna getur alþjóðasamfélagið orðið að liði og þarna nýtast tiltölulega litlir fjármunir mjög vel. Það er fagnaðarefni að ákveðið skuli hafa verið að fara yfir þetta mál og efla þessa starfsemi.

Meginstoðir íslensku utanríkisstefnunnar hafa verið aðild að Sameinuðu þjóðunum, aðild að NATO, samstarf við Bandaríkin um varnarmál, við höfum verið aðilar að innri markaði Evrópubandalagsins í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, við höfum verið virkir þátttakendur í norrænni samvinnu um langt skeið og samstarf þingsins í alþjóðamálum hefur aukist mjög. Ég er þess fullviss að það samstarf er miklu markvissara en það var t.d. þegar ég settist á Alþingi fyrir um 20 árum, ég fullyrði það.

Ég vil nefna Norðurlandasamstarfið vegna þess að ég gegni trúnaðarstörfum þar núna. Ég kom inn í það samstarf á ný í haust, inn á Norðurlandaþing eftir tólf ára fjarveru en ég var í stuttan tíma í Norðurlandaráði fyrir tólf árum. Það kom þægilega á óvart, ef svo má segja, hve mér fannst hafa orðið miklar og jákvæðar breytingar á starfi ráðsins. Mér finnst Norðurlandaráð hafa sjálfstraust í dag, mér finnst það telja sig hafa eitthvað fram að færa m.a. í Evrópusamstarfinu þar sem Norðurlöndin eru virkir þátttakendur, sum eru aðilar að Evrópusambandi, önnur eru það ekki en eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég finn að það er mjög góð samstaða um það á Norðurlöndum að þau hafi eitthvað fram að færa í þessu samstarfi, að á Norðurlöndunum sé frelsi, þar sé gott velferðarkerfi, þar séu mannréttindi virt og þar sé tiltölulega mikil valddreifing og að þetta getum við fært sameiginlega út í Evrópusamstarfið.

Það er alveg ljóst að árangur norræns samstarfs hefur verið mikill í gegnum árin. Við höfum ferðafrelsi á Norðurlöndum og frelsi til búsetu. Við höfum sameiginlegan vinnumarkað og sams konar reglur og gagnkvæmar reglur um félagslegan stuðning. Námsmenn á Norðurlöndum hafa rétt til að læra þar hvar sem er og við viðurkennum próf frá öðrum Norðurlöndum. Þetta er gríðarlega mikils virði og hefur verið okkur mikils virði í gegnum árin og samstarf þessarar stóru fjölskyldu í Skandinavíu getum við fært út á annan vettvang.

Miðflokkarnir á Norðurlöndin hafa nýlega samþykkt stefnuskrá um framtíðarsýn sína. Framtíðarsýn þeirra er samvinna yfir landamæri, að afnema landamærahindranir á Norðurlöndunum og hafa forustu í samvinnu við nágrannaþjóðirnar. Norðurlöndin hafa haft mikið samstarf við baltísku löndin, þau hafa haft mikið samstarf við Rússa og Kanadamenn í Norðurskautsráðinu, það samstarf hefur farið vaxandi. Við viljum vera norræn vídd í Evrópusamstarfinu. Við viljum halda öflugu menningarstarfi og samstarfi grasrótarinnar og hafa sem víðtækast samstarf í umhverfismálum og nefni ég þar Norðurskautsráðið sem lykilstofnun því að þar eru miklir hlutir að gerast. Það er mjög áríðandi að efla rannsóknir þar. Í morgun hefur ítrekað verið rætt um norðurleiðina og þá möguleika sem þar opnast. Við þurfum að fylgjast með hvaða áhrif hin mikla bráðnun á norðurhveli jarðar hefur á fiskstofna. Það eru ein stærstu málin hjá okkur að fylgjast sem best með og taka virkan þátt, eins og við höfum gert, í því samstarfi sem er meðal þessara þjóða. Þarna getum við samræmt sjónarmiðin á Norðurlöndum til að vinna með öðrum að þeim miklu verkefnum sem þarna blasa við og eru kannski einna brýnust og afdrifaríkust fyrir okkur af öllum málum ef grannt er skoðað.

Ég vil í lokin koma örlítið inn á hin miklu átök sem eru í Miðausturlöndum. Þau hafa kostað óbreytta borgara lífið eins og hér hefur verið rætt um undanfarna daga. Ég tek undir að það sé rangt að það sé innlegg í þau mál að tala ekki við Ísraelsmenn, annan aðilann í þessum deilum. Ég tel að við verðum að gera það, hlusta á þeirra sjónarmið eins og við höfum gert, en við getum ekki undir neinum kringumstæðum annað en fordæmt það að óbreyttir borgarar falli í stórum stíl, hvorum megin víglínunnar sem það er. Ég varð dálítið undrandi á orðalagi hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar áðan þegar hann talaði um nokkrar eldflaugar sem skotið hefði verið á Ísrael. Við getum ekki talað um þetta af svona mikilli léttúð, þó að við fordæmum aðgerðir Ísraelsmanna og höfum gert rækilega. Þetta er flókið og erfitt viðfangsefni og þessi deila virðist verða æ óleysanlegri.

Það hefur verið rætt mikið um Írak hér í morgun og ég ítreka að það sem íslenska ríkisstjórnin samþykkti í því efni var að leyfa lendingar á Keflavíkurflugvelli, eins og alltaf hefur verið gert í hliðstæðum átökum og var gert í Flóastríðinu, og að leggja 300 milljónir til uppbyggingar ef friðvænlegar horfði í þessum heimshluta. Því miður hefur svo ekki orðið enn og hef ég ekki tíma til þess að fara nánar út í það efni.

Ég tel að Íslendingar eigi að efla utanríkisþjónustu sína eins og það höfum við gert á undanförnum árum. Ég tel að það sé rétt stefna. Við getum ekki lengur treyst á að það sé hlustað á okkur vegna þess að við séum flugmóðurskip í Atlantshafi, við verðum að taka þátt í utanríkismálum á okkar eigin forsendum og það hefur verið stefnan á undanförnum árum. Fyrrverandi utanríkisráðherrar og m.a. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, vann í þeim anda og ég tel að það hafi verið rétt stefna. Ég minntist á að þingið hefði tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi, ég tel að sú þátttaka sé miklu markvissari en hún var og byggi ég það á langri reynslu sem þingmaður. Ég tel að við eigum að taka þátt á öllum sviðum, vera gildandi og leggja okkar lóð á vogarskálina á alþjóðavettvangi. Það er eftir því tekið ef svo er.