133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:50]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir með honum. Ég held að við eigum nefnilega alls ekki að útiloka aðild að Evrópusambandinu heldur þvert á móti að stefna að því að sækja þar um aðild innan einhvers tíma. En það er svo sem ekkert sem liggur á akkúrat núna. Þetta gengur ágætlega eins og er. Ég fagna í sjálfu sér því viðhorfi þingmannsins að hann útiloki ekki aðildarumsókn síðar. Það er gleðilegt að heyra þá tóna úr Framsóknarflokknum eftir að Halldór Ásgrímsson er genginn þaðan á brott en hann var kannski hvað ákafastur Evrópusinni þar innan borðs. (Gripið fram í.) Já, burt úr ríkisstjórninni, hæstv. ráðherra.

En ég vil ég spyrja hv. þingmann um annað sem hann kom inn á ágætu andsvari sínu, það var hin umdeilda tilskipun frá því í vor um frjálst flæði vinnuafls. Það hefur verið gagnrýnt mjög harkalega, ekki síst af þingmönnum Frjálslynda flokksins, að íslensk stjórnvöld hafi ekki sótt um frest við innleiðingu þeirrar tilskipunar sem gera það að verkum að vinnuafl kemur frá fleiri löndum, frjálst flæði, fólk getur komið hér í auknum mæli en þetta hefur verið heilmikið pólitískt þrætuepli undanfarið.

Tekur þingmaðurinn undir það með gagnrýnendum að það hafi verið mistök að innleiða þessa skipun og hún sé rót að einhverjum vanda í samfélaginu, eins og sumir alþingismenn hafa látið liggja að og ýmsir aðrir sem fóðra þá umræðu úti í samfélaginu að útlendingar séu að verða hér mikið vandamál og það að við höfum ekki sótt um frest á þessari tilskipun valdi því vandamáli?