133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:19]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða ræðu sem gaf yfirsýn yfir helstu áhersluþætti í utanríkismálum Íslands um þessar mundir. Tengsl þeirra við landfræðilega legu og horfur fram undan. Að auki var gefin innsýn inn í það hvaða gildi eru höfð að markmiði í alþjóðasamstarfi sem Ísland tekur þátt í. Það er nú einu sinni svo að leiðin til farsællar stefnu okkar Íslendinga á þessu sviði, eins og á svo mörgum öðrum, byggist á góðri yfirsýn og skýrum markmiðum.

Hnattstaða Íslands hefur haft mótandi áhrif á stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum. Varnarsamstarfið við Bandaríkin hefur verið meginstoð í utanríkisstefnu Íslands og mun vera það áfram þrátt fyrir breytingarnar síðustu missirin við brotthvarf varnarliðsins. Þessar breytingar eru byggðar á þeim góðu horfum sem eru á að friður haldist á okkar svæði í næstu framtíð. Að þessu leyti getum við vel við unað í samanburði við önnur svæði í heiminum.

Önnur alþjóðleg samskipti okkar hafa einnig mótast af landfræðilegri legu landsins, hvort sem það eru stjórnmálaleg, efnahagsleg eða menningarleg samskipti. Það er mögulegt að Ísland muni í framtíðinni efla samráð og samstarf um öryggismál við lönd í kringum okkur, eins og Kanada, Bretland og Norðurlönd, til viðbótar samstarfi við Bandaríkin.

Ekki er ofsögum sagt hversu sterkum böndum við erum bundin nágrönnum okkar á Norðurlöndunum í mörgu tilliti. Þessi staðreynd sem stundum gleymist vegna þess hve hún er samgróin okkur hefur verið og ætti áfram að vera mikil stoð í alþjóðlegu samstarfi okkar. Tengsl okkar við önnur Norðurlönd eru sterk. Þau eru næstu nágrannar okkar sem við eigum í miklum samskiptum við og berum okkur saman við. Við höfum metnað til að standa þeim jafnfætis og vera þeim samstiga.

Hæstv. forseti. Hér er ekki leitast við að draga upp fagra mynd af alþjóðlegum samskiptum, frekar er verið að minna á staðreyndir sem hafa áhrif á daglegt líf Íslendinga. Norrænt samstarf hefur tvímælalaust veitt tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi.

Það var afskaplega ánægjulegt að heyra hv. þm. Jón Kristjánsson, sem kom nýr inn í Norðurlandaráð núna í haust, tala um hvað Norðurlandaráð hefði breyst mikið til batnaðar og hann sér það vel eftir að hafa verið þar fyrir mörgum árum síðan og er að koma þar inn á ný.

Skemmst er að minnast hve óþreytandi starf hefur farið fram á vegum Norðurlandaráðs til að ryðja landamærahindrunum úr vegi, nokkuð sem veitt hefur Íslendingum tækifæri til að stunda nám og starfa annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefur verið til gagns fyrir íslenskt samfélag þegar sú þekking og reynsla sem menn hafa öðlast á Norðurlöndunum hefur borist hingað heim.

Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs hef ég getað fylgst með starfinu, verið með í að ryðja úr vegi hindrunum milli landanna, en sú vinna miðast ekki aðeins að því að afnema þær hindranir sem eru fyrir hendi, heldur líka koma í veg fyrir að aðrar nýjar myndist.

Þetta gagnast líka fyrirtækjum. Það er að mínu mati engin tilviljun að við útrás íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum hafi þau m.a. sótt fram á Norðurlöndunum. Hugsanlegar skýringar á því geta verið þær að þar er viðskiptaumhverfið ekki ólíkt því sem stjórnendur þeirra eiga að venjast á Íslandi, menningin er svipuð og tungumálin skyld.

Á sama tíma og miklar breytingar hafa orðið í alþjóðamálum á borð við endalok kalda stríðsins, stækkun Evrópusambandsins og baráttuna gegn hryðjuverkum hefur norðurlandasamstarfið verið stöðugt. Það hefur verið í takt við tímann og snúist um málefni líðandi stundar. Í þessu sambandi má nefna að á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn voru á dagskrá málefni eins og mansal, skipulögð glæpastarfsemi, loftslagsbreytingar og áherslur sem miðar að því að leysa og koma í veg fyrir togstreitu af menningarlegum toga. Einnig var á þinginu til umfjöllunar áfram norrænt samstarf til að færa sér í nyt ímynd Norðurlanda til að einkenna þau svæði í fararbroddi á tímum hnattvæðingar.

Hæstv. forseti. Eitt af því sem skapar ímynd Norðurlanda, þar á meðal Íslands, eru lýðræðisleg gildi á borð við mannréttindi og jafnrétti. Því er ég sérstaklega ánægð með að heyra hæstv. utanríkisráðherra lýsa þeirri áherslu sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggur á þátt kvenna í þróunarsamstarfi sínu víða um lönd. Það er áhrifarík leið að bæta velferð samfélaga og styrkja það mikilvæga hlutverk sem konur gegna.

Á morgun koma tvær ljósmæður aftur til Íslands eftir afar velheppnaða kennslu í Afganistan þar sem þær héldu námskeið í Afganistan og kenndu konum ljósmóðurfræði og fæðingarhjálp. Önnur þeirra er frá Húsavík og hin er frá Reykjavík. Þetta starf sýnir hvað Íslendingar geta lagt af mörkum á ýmsan hátt. Fæðingarhjálp er afskaplega mikilvægt starf. Formaður utanríkismálanefndar nefndi það á fundi í utanríkismálanefnd um daginn að þetta væri í fyrsta skipti líklega sem rætt væri um fæðingarhjálp í utanríkismálanefnd og er það bara vel. Því hvað er mikilvægara en að koma litlu barni heilbrigðu í heiminn og hjálpa til við það? Þetta er einmitt það sem við Íslendingar getum gert. Við getum lagt margt til málanna til að efla kjör kvenna og barna í heiminum og útrýma fátækt.

Eins og hæstv. ráðherra gat um í ræðu sinni áðan er mjög gleðilegt að friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2006 sé einmitt Grameen-bankinn í Bangladess og stofnandi hans Muhammad Yunus sem hefur frá árinu 1974 veitt lítil lán til kvenna. Lán sem þrátt fyrir það að vera ekki há hafa gert konum kleift að búa sér og fjölskyldum sínum betra líf, að vera lausar úr viðjum fátæktar. Þessi einfalda viðskiptahugmynd hefur reynst snjöll og haft jákvæð samfélagsleg áhrif. Þetta hefur verið gert líka á Íslandi með mjög góðum árangri.

Það er einnig jákvætt að heyra um hækkun á framlögum til UNIFEM. Ég vil geta þess einmitt í þessu sambandi að ég átti þess kost að fara á vegum Alþjóðabankans til Naíróbí í Keníu í haust þar sem við skoðuðum verkefni sem Alþjóðabankinn hefur verið að styðja. Við komum í skóla í fátækrahverfi í útjaðri Naíróbí. Þar var stórt skilti utan á skólanum með merki UNIFEM. Þetta er skóli þar sem flestöll börnin eiga enga foreldra, sum aðeins eitt foreldri. Skólinn er griðastaður þeirra og þar fá þau það öryggi að fá mat í hádeginu sem ekki öll börn búa við í því landi.

Við fórum líka og heimsóttum smábændur sem hafa fengið styrk frá Alþjóðabankanum og þess má geta að það eru konur sem halda þessu öllu uppi. Það eru konur í landbúnaði, það eru konur í kennslu, þar eru alls staðar konur. Það eru konurnar sem vinna þau verk sem þarf að vinna í landinu. Það eru þær sem hafa djörfung til að stofna fyrirtæki.

Líka var athyglisvert að koma í þingið í Naíróbí þar sem ég tók viðtal við þingkonu. Þær eru mjög fáar á þinginu. Það er sama kerfi hjá þeim og í Bretlandi, og hún sagði mér að konurnar fengju aldrei að taka til máls í þinginu. — „Það er alveg sama hvað við konur erum glæsilegar, hvað við reynum að láta forseta þingsins taka eftir okkur, við fáum aldrei orðið.“

Það er mjög alvarlegur hlutur að ríki eins og Kenía skuli láti það viðgangast að konurnar á þingi þeirra fái ekki að taka til máls. En maður hefur einmitt gott af því að fara út fyrir landsteinana og sjá hvað er að gerast í öðrum ríkjum og þakka þá fyrir það að búa á Íslandi og hafa allt það frelsi sem við búum við.

Hæstv. forseti. Öryggis- og varnarmál eru mikilvæg í utanríkisstefnu Íslendinga. Kjölfestan í þeim málum hefur verið og verður áfram samstarfið við Bandaríkin þó mögulegt sé að leitað verði einnig annarra leiða í þeim efnum. Mikilvæg stoð í alþjóðasamstarfi Íslands er Norðurlandasamstarfið sem sýnt hefur stöðugleika og aðlögunarhæfni. Norðurlöndin eru þekkt fyrir að standa framarlega í jafnréttismálum og því ánægjulegt að áhersla sé lögð á framlag kvenna í starfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Hins vegar er nauðsynlegt að hafa hugfast að vinna fyrir jafnrétti á Íslandi krefst stöðugrar árvekni, eins og við höfum verið minnt á upp á síðkastið í formi niðurstöðu könnunar félagsmálaráðuneytisins á launum kynjanna og nýafstaðinna prófkjara.