133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:42]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í tengslum við ræðu hv. þingmanns sem ég þakka fyrir.

Ég vil endilega að hún skilji ekki mál mitt þannig að það sé tilhlökkun í mínum huga vegna þeirra loftslagsbreytinga sem eiga sér stað í heiminum. Það er alls ekki svo. Við horfum hins vegar fram á þær staðreyndir að það er mikil breyting og það er mikil bráðnun íss hér norðan við okkur sem vissulega breytir nokkuð landslaginu í sambandi við flutninga. Þá er full ástæða til þess að við Íslendingar horfum á það sem tækifæri að svo miklu leyti sem það getur orðið það fyrir okkur.

Síðan vil ég segja það í sambandi við þróunarmálin að þó svo að ég komi ekki inn á þau hvað varðar fjárframlög til framtíðar í ræðu minni erum við svo sannarlega ekki að hvika frá þeim áformum sem voru reyndar sett fram fyrst árið 1998 af hálfu þáverandi utanríkisráðherra. — Nei, það er öryggisráðið sem er tilkynnt fyrst um 1998 og þess vegna er ekki hægt að setja samband þarna á milli að mínu mati. Hins vegar er það staðreynd að við stefnum að 0,35% marki núna 2009 og eftir það að þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um 0,7% af þjóðartekjum. Það er ekki verið að hörfa frá því.

Kannski hefur komið einhvers staðar fram í fréttum að stuðningur hafi komið frá Ísrael núna í þessari viku í sambandi við öryggisráðið en það er ekki rétt. Hann var kominn fram fyrir nokkuð löngu síðan en hins vegar orðaði sendiherrann þetta aðeins á fundi okkar. Það er ekki þannig að hún hafi verið að tilkynna fyrst um þennan stuðning núna.

Svo hefði ég gjarnan vilja segja nokkur orð í sambandi við Írak en geri það kannski bara í seinna andsvari mínu.