133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:05]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóða skýrslu og sömuleiðis góða ræðu fyrr í morgun. Í skýrslunni sjálfri, eins og í umræðum í dag, er komið víða við. Ég mun í ræðu minni koma aðeins inn á nokkur atriði er varða utanríkisstefnu Íslands.

Ég tel að það sé hverri þjóð mikilvægt að reka sjálfstæða og skýra utanríkisstefnu. Það höfum við Íslendingar gert. Stefnan, eins og gefur að skilja, er í sífelldri mótun. Það má segja að á undanförnum mánuðum hafi orðið meiri breytingar á stöðu utanríkismála og öryggis- og varnarmála okkar en orðið hafa um langa hríð. Ég tel að hvað öryggis- og varnarmál varðar hafi ríkisstjórnin haldið vel á málum miðað við þá erfiðu stöðu sem upp var komin.

Breytingarnar hafa kallað á aukið frumkvæði af hálfu okkar Íslendinga við að tryggja öryggi og varnir landsins. Ég tel að að einhverju leyti hafi verið brugðist við því af hálfu ríkisstjórnarinnar en um leið eru aðrar breytingar í undirbúningi og brýnt að halda vel á þeim málum.

Hornsteinn öryggis- og utanríkisstefnu Íslands er þátttaka landsins í starfi Sameinuðu þjóðanna, varnarsamstarfi vestrænna þjóða, Norðurlandaráði og Evrópusamstarfinu. Samstarf á þeim vettvangi við Bandaríkin verður áfram mikilvægt en ég fagna þeim áherslum hæstv. utanríkisráðherra sem hún hefur lagt fram, um að rækta enn frekar tengslin við Evrópu og tek undir að við þurfum að fylgjast náið með þróun þessara mála á vettvangi Evrópusambandsins.

Ég tók líka eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hún telur nauðsynlegt að efla samráð og samstarf við þau ríki sem deila hagsmunum okkar við norðanvert Atlantshaf. Þar skipta Bandaríkin máli en ekki síður Kanada, Bretland og Norðurlöndin. Ég tek heils hugar undir þetta.

Frú forseti. Í þessum umræðum vil ég fjalla sérstaklega um þróunarsamvinnuna. Ég fagna mjög að hæstv. utanríkisráðherra ætli sér að fara í stefnumótun um þróunarsamvinnu okkar Íslendinga. Hún ræddi m.a. um þau mál í gær við utanríkismálanefnd þar sem ég er fulltrúi. Einnig er rætt um að endurskoða lögin um stofnunina enda eru þau orðin 25 ára gömul.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra er baráttan fyrir efnahagslegum og félagslegum framförum ekki aðeins barátta gegn fátækt heldur jafnframt barátta fyrir friði og öryggi. Þess vegna er samstarf og samþætting friðargæslunnar, þar með talið þeirrar íslensku, og þróunarsamvinnunnar svo mikilvæg. Ég fagna því að þau sjónarmið skuli höfð uppi.

Ég tel að við getum verið stolt af framlagi okkar í þróunarsamvinnu í gegnum tíðina. Þar hefur verið unnið merkilegt starf og ég verð að viðurkenna að ég þekki ágætlega til þess, enda má segja að fjölskylda mín hafi tekið þátt í því á mínum yngri árum um árabil, þegar við tókum þátt í verkefni á vegum stofnunarinnar á Grænhöfðaeyjum. Maður hefur þess vegna fylgst náið með þróun starfsins á síðustu árum. Ég fagna þeirri miklu þróun og aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á þau mál. Við verðum sífellt að vera gagnrýnin á verkefnin sem við veljum að fara í á vegum þróunarsamvinnunnar, hverjum þau gagnast best og hvernig.

Ég vildi koma inn á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til þróunarmála sem ég held einmitt að séu mjög mikilvæg og til marks um að Íslendingar axli ábyrgð sína á vettvangi alþjóðamála og alþjóðastjórnmála. Við eru rík þjóð sem berum ríkar skyldur í alþjóðasamfélaginu. Á árinu 2004 ákvað ríkisstjórnin að stórauka framlög sín til þróunarmála með það að markmiði að þau skyldu nema 0,35% af vergri landsframleiðslu á árinu 2009. Ég veit ekki betur en sú áætlun þessi haldi og ríkisstjórnin hafi staðið við hana. En á næsta ári, miðað við það fjárlagafrumvarp liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir að framlögin muni nema um 3,2 milljörðum kr. eða sem svarar 0,28% áætlaðrar landsframleiðslu. Með áframhaldandi hækkun munu framlögin nema 4,5 milljörðum kr. á árinu 2009. Það er mikilvægt að þessum fjármunum verði vel varið en ég fagna því að Íslendingar hafa axlað þá ábyrgð að bæta í hvað þetta varðar.

Ég get ekki látið hjá líða að koma að orðum hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem hún lét falla hér um samráðið um endurskoðun Þróunarsamvinnustofnunarinnar og stefnumótun í þeim efnum. Á fundi utanríkismálanefndar í gær voru þau mál þar rædd. Þar fannst mér ráðherra lýsa því yfir, og nefndarmenn tóku undir með ráðherranum að því leyti, að mikilvægt væri að ráðuneytið hefði samstarf við þingið og utanríkismálanefnd um þróun þessara mála. Ráðherrann lýsti því yfir að hann væri að sjálfsögðu tilbúinn að stuðla að því. Mér finnst því óþarfi að vera í fýlu eða draga úr því. Þetta kom líka fram í ræðu hæstv. ráðherra fyrr í dag.

Hvað varðar þróunarsamvinnuna eigum við einmitt að byggja á styrkleikum okkar í henni og baráttunni gegn fátækt í þróunarlöndum. Þar vil ég nefna þekkingu okkar í sjávarútvegsmálum, þekkingu okkar og árangur í heilbrigðismálum og velferðarmálum almennt, þar með tel ég menntamálin. Áherslu á málefni kvenna í þróunarsamvinnu á vegum stjórnvalda tel ég árangursríka leið til að ná raunverulegum árangri hvað þessi mál varðar. Við eigum að halda áfram á þeirri braut og vinna að endurskoðun þróunarsamvinnunnar með þeim hætti að um starfsemi hennar ríki einhugur meðal þjóðarinnar og að starfsemi hennar skili sem mestum árangri. Þó að við séum fámenn þjóð þá erum við rík þjóð með mikla ábyrgð í samfélagi þjóðanna.

Frú forseti. Vegna ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar áðan vil ég taka fram að ég er sammála honum um að við eigum að vera gagnrýnin og fara varlega hvað varðar fjárveitingar. Við þurfum að vera skynsöm í uppbyggingu og rekstri utanríkisþjónustunnar. Það er hárrétt og ég tek undir það. En ég tel að sú góða uppbygging sem orðið hefur í rekstri og uppbyggingu utanríkisþjónustunnar sé til góðs vegna þess að við erum sjálfstæð þjóð, eyþjóð og lítil þjóð, sem þarf að rækta vel pólitísk tengsl og ekki síður viðskiptatengsl okkar við umheiminn. Ég held að sú stefna sem hæstv. ráðherra hefur markað um að efla einmitt viðskiptahlið ráðuneytisins og þá málaflokka í ráðuneytinu sé vel til þess falin. Íslendingar eru og hafa verið í mikilli útrás og við eigum frekar að örva þá starfsemi en hitt.

Hæstv. forseti. Ég vil hér einnig koma inn á nýjar áherslur hæstv. utanríkisráðherra um Íslensku friðargæsluna sem nýlega hafa verið kynntar. Það má með sanni segja að Íslenska friðargæslan standi á merkum tímamótum. Utanríkisráðherra vinnur að endurskoðun friðargæslunnar og hefur sett fram ný markmið í ljósi þeirrar reynslu og þekkingar sem við Íslendingar höfum aflað okkur þau fimm ár sem friðargæslan hefur starfað í núverandi mynd. Sú staðreynd að við erum herlaust land hlýtur að móta áherslur okkar í friðargæslunni. Um leið tel ég að hún skapi okkur ákveðna sérstöðu í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Mikilvægt er að sátt ríki um starfsemi friðargæslunnar og ég tek því undir með utanríkisráðherra að afar mikilvægt sé að þingið og utanríkismálanefnd, sem og þjóðin öll, ræði um starfsemi friðargæslunnar og áherslur í starfi hennar. Í þeim tilgangi mætti hæstv. utanríkisráðherra á fund utanríkismálanefndar þingsins. Þar voru þau mál rædd. Ég fagna áherslunni á að mýkja ásýnd friðargæslunnar og auka starfsemi hennar á borgaralega sviðinu.

Áherslan er helst á fjórum sviðum: löggæslu og réttarfars, flugmála og flugvallarstjórnar, fjölmiðla- og upplýsingamála, og síðan heilbrigðismála. Í þeim anda er nýtt verkefni á vegum friðargæslunnar en íslensk ljósmóðir og íslenskur hjúkrunarfræðingur eru farin til Afganistan eins og við þekkjum. Við höfum heyrt af því í fréttum. Þar munu þau standa fyrir fæðingarnámskeiði. Á Íslandi er lægstur burðarmálsdauði í heiminum. Við höfum á að skipa vel menntuðu og reynslumiklu fagfólki á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins og höfum því margt til að leggja á vettvangi alþjóðasamstarfsins á þessu sviði. Ég tel þetta verkefni gott dæmi um þróunina í friðargæslunni og þróun sem um leið gefur fleiri konum kost á að starfa fyrir Íslensku friðargæsluna. Ég fagna því mjög.

Við Íslendingar berum ábyrgð, eins og ég hef sagt, í samfélagi þjóðanna, sérstaklega í ljósi þeirrar almennu velferðar sem við höfum skapað okkur. Við höfum á að skipa vel menntuðu og reyndu fólki sem getur lagt sitt af mörkum til alþjóðasamfélagsins. Þar vil ég nefna verkefni við mæðra- og ungbarnaeftirlitið. Ég nefni einnig verkefni á sviði flugvalla- og flugmálastjórnunar í Kosovo og Kabúl. Ég tel að stefnumörkun hæstv. utanríkisráðherra sé í takt við íslensku þjóðarsálina og kröfuna um herlaust land. Við látum til okkar taka á þeim sviðum sem við erum sterk á, t.d. í mannréttindamálum og heilbrigðismálum. Ég er viss um að við getum enn frekar eflt starf Íslensku friðargæslunnar og stuðlað að því að um starfsemi hennar ríki sátt. Ég held að það sé mikilvægt.

Frú forseti. Ég vil líka koma inn á mannréttindastefnuna sem ráðherra boðaði í ræðu sinni að hún beitti sér fyrir að unnið yrði að í utanríkisráðuneytinu, hún verður síðan að sjálfsögðu rædd í þinginu og utanríkismálanefnd. Það er mikilvægt að menn tali einni röddu á vettvangi utanríkisþjónustunnar fyrir hönd Íslands hvar sem við komum og tökum þátt í alþjóðasamstarfi. Þess vegna hefur verið ákveðið að marka heildstæða stefnu í mannréttindamálum. Eins og greint hefur verið frá í utanríkisráðuneytinu er sú stefna í gangi. Stefnt er að því að drög að slíkri stefnu verði tilbúin í febrúar 2007 og verði þá kynnt og rædd í utanríkismálanefnd.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherrans, sem kom fram á fundi utanríkismálanefndar í gær að ráðherrann ætli að beita sér fyrir því að framlög til Mannréttindaskrifstofu verði 4 millj. kr. á þessu ári. Ég fagna þeirri yfirlýsingu og finnst það vel til fundið. Það særði mann hvernig mál fóru á sínum tíma þannig að ég fagna því.

Frú forseti. Auðvitað hefur víða verið komið við í umræðum um utanríkismál enda snerta þau marga þætti þjóðlífsins. Mig langar aðeins að ræða um stefnu Framsóknarflokksins í málefnum Evrópusambandsins. Fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, beitti sér ávallt fyrir mikilli umræðu á vettvangi þingsins og stjórnmála um Evrópusambandsmálin. Ég tel það af hinu góða. Við eigum ekki að forðast þá umræðu heldur þurfum við að taka þátt í henni og fylgjast náið með þróun mála innan Evrópusambandsins, á vettvangi alþjóðasamstarfsins og samfélagsins. Framsóknarflokkurinn markaði sér þá stefnu á síðasta flokksþingi 2005 að mikilvægt væri að við beittum okkur fyrir umræðu um þau mál. Við töldum mikilvægt að þjóðin yrði upplýst um kosti og galla aðildar að EES-samningnum á sínum tíma þegar hann var mikið til umræðu. Á vettvangi flokksins mun áfram haldið upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöður þeirrar vinnu ætti að bera undir næsta flokksþing sem haldið verður í febrúar eða mars á næsta ári, 2007. Í þeirri stefnu kom jafnframt skýrt fram að kæmi til aðildarviðræðna skyldu niðurstöðurnar að sjálfsögðu bornar undir þjóðaratkvæði. Ég tel reyndar að um það sé almenn sátt.

Það er auðvitað spennandi fyrir okkur framsóknarmenn að fá á næsta flokksþingi niðurstöður þeirrar vinnu sem fram hefur farið á vettvangi flokksins um alllanga hríð. Það er ekkert launungarmál að um málið eru skiptar skoðanir. En ég held samt sem áður að mikilvægt sé að höldum áfram að ræða það fordómalaust og af heilum hug. En málið er auðvitað alltaf til umræðu og við þurfum að taka afstöðu til þess fyrr en síðar.