133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:27]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ég hlakka líka til þess að unnið verði almennilega í þessum málaflokki. Það á að veita meira fjármagn til þróunarsamvinnu, það skiptir máli en það skiptir eiginlega meira máli að stefnan sé í lagi og markmiðin líka. Auðvitað verður hún ekki unnin öðruvísi en í samráði við alla stjórnmálaflokka og í almennilegum vinnubrögðum og samskiptum á hinu háa Alþingi, hvort heldur það er í þessum sal eða í vinnu þingnefnda.

Ég get upplýst hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur um það — hún hefur ekki setið mjög lengi á þingi en þó í nokkurn tíma — að þannig er það bara ekki alltaf á hinu háa Alþingi. Hún er kannski ekki orðin jafnharðsvíruð í vinnubrögðum meiri hlutans og sá meiri hluti sem hér hefur setið í næstum 12 ár. Það er gott hennar vegna. En við hin sem höfum verið hér aðeins lengur, ég tala nú ekki um þau sem hafa verið hér lengst allra og kannski síðustu 12 árin, vitum nákvæmlega hvernig meiri hlutinn hefur unnið og hvort hann hlustar á tillögur þeirra sem eru í stjórnarandstöðu eða ekki eða með hvaða hætti þær eru meðhöndlaðar í þinglegum störfum. Það er kannski ekki endilega við hæfi að ræða það í dag í umræðum um utanríkismál en svona er þetta bara og við tölum af reynslu. Af henni má læra og því má líka breyta og vonandi breytast þessi vinnubrögð fyrr en seinna.