133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:45]
Hlusta

Sigríður A. Þórðardóttir (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta skýrslu um utanríkismál. Ég lýsi sérstakri ánægju með áherslur hennar í þróunaraðstoð og þróunarsamvinnu og þeim áformum að tengja hana sérstaklega við málefni kvenna. Hér er sannarlega brotið í blað í utanríkismálum okkar Íslendinga.

Það er vaxandi áhersla á málefni kvenna í alþjóðlegu samhengi sem er í fullu samræmi við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og baráttuna fyrir bættum heimi, jafnari skiptingu lífsgæða, friði og öryggi. Það er grundvallaratriði til að útrýma fátækt og hungri og að fást við erfið heilsufarsvandamál að leggja áherslu á málefni kvenna og barna í þeirri baráttu. Þessar áherslur falla líka vel að nýjum áherslum fyrir Íslensku friðargæsluna um að þau verkefni verði unnin í nánu samstarfi við þróunar- og hjálparstarf. Þetta finnst mér mjög góðar áherslur og það verður ánægjulegt að fylgjast með því hvernig þessi mál munu þróast á næstu árum.

Ég vil líka í þessu samhengi geta þess sérstaklega að ég tók þátt í umhverfisráðherrafundum í tengslum við ráðherrafundi í Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa konur í hópi umhverfisráðherra með sér óformlegt samstarf. Þar höfum við að sjálfsögðu rætt alveg sérstaklega um málefni kvenna, einkum í tengslum við sjálfbæra þróun. Mjög margar sterkar konur hafa sótt þessa fundi, t.d. frá Afríkuríkjunum, og þeir hafa verið mjög gagnlegir og upplýsandi. Það er líka gaman að geta upplýst það hér að þetta er frumkvæði sem kemur frá norrænu umhverfisráðherrunum sem hafa margir hverjir verið konur. Það er enginn vafi í mínum huga að það mun skila árangri að leggja sérstaka áherslu á málefni kvenna í þessu samhengi.

Það er líka augljóst að endurskoðun laga um Þróunarsamvinnustofnun er brýn og það er mjög skynsamlegt að samtímis sé unnið að nýrri lagasetningu um Íslensku friðargæsluna.

Ég átti þess kost núna í október að sitja fundi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og fylgjast með störfum þar. Þar var mikið unnið að framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Mér finnst fyllilega tímabært að við Íslendingar sækjumst eftir því að eiga þar sæti. Við höfum verið meðlimir í 60 ár og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa átt sæti í öryggisráðinu svo að það er alveg ljóst að við eigum að láta okkar rödd heyrast þar og sækjast eftir þessu af fullum krafti.

Það er mjög mikið verk að vinna framboði okkar fylgi og tryggja okkur stuðning til þessa mikilvæga verkefnis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, ekki síst þegar það þarf aukinn meiri hluta atkvæða þjóðanna til að öðlast slíkt sæti.

Það var athyglisvert að upplifa líka á þessum tíma sem ég sótti allsherjarþingið að það var verið að stofna svokallaðan Peace Building Fund. 20 þjóðir tóku þátt í því með framlögum og Íslendingar eru þar á meðal. Þessum sjóði er ætlað styðja við friðaruppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum og samtals hafa þessar 20 þjóðir lagt fram rúmlega 142 millj. bandaríkjadala, við Íslendingar þá 1 millj. bandaríkjadala. Þáttur Norðurlandanna er mjög gildur, drjúgur hluti af þessum fjármunum mun koma frá Norðurlöndunum.

Ég vil líka gera að sérstöku umtalsefni hér hvað það er mikilvægt að við leggjumst á eitt um að afla okkur Íslendingum fylgis til að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar tel ég að við þingmenn á hinu háa Alþingi höfum heilmikið verk að vinna á alþjóðlegum vettvangi. Við tökum þátt í margs konar alþjóðlegu samstarfi og getum þar lagt þessu máli lið. Ég endurtek það hér að ég tel að við höfum mjög margt til málanna að leggja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Nú er nýafstaðið Norðurlandaráðsþing. Það var haldið í Kaupmannahöfn um síðustu mánaðamót. Það var einstaklega ánægjulegt að sækja það þing. Það var jákvætt og mikill samhljómur í málflutningi. Það sem í raun og veru stendur upp úr að loknu Norðurlandaráðsþinginu er hvað það er mikill vilji til þess að efla norrænt samstarf. Þegar við lítum til baka, við skulum segja 10 ár aftur í tímann eða rúmlega það, þegar Norðurlandaþjóðirnar, bæði Svíþjóð og Finnland, voru að taka ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið var ekki spáð vel fyrir norrænu samstarfi. Þá voru samt nokkrir sem sögðu, og það var greinilega mjög framsýnt fólk, að þetta mundi breytast í tímans rás. Þetta samstarf hefði svo mikla sérstöðu í alþjóðlegu samstarfi, í svæðisbundnu alþjóðlegu samstarfi, að menn mundu átta sig á því innan tíðar hversu gildur þáttur þetta er og á að vera í samstarfi þessara þjóða.

Það sem var einstaklega gleðilegt líka var að Norðurlandaráð lét gera skoðanakönnun meðal íbúa Norðurlandanna um afstöðu þeirra til norrænnar samvinnu. Þetta var gert núna í haust, fyrir Norðurlandaráðsþingið. Þar kom fram að mjög mikill áhugi er á því að styrkja samstarf Norðurlandanna. Kannski má segja að þau lönd, Ísland og Noregur, sem ekki eru í Evrópusambandinu hafi lagt sérstaka áherslu á þetta. Það var samt mjög athyglisvert að það er vaxandi áhersla almennt, líka annars staðar á Norðurlöndunum, ekki hvað síst í Danmörku sem er það Norðurlandanna sem hefur verið lengst í Evrópusambandinu.

Þetta fannst mér mjög athyglisvert og það er líka mjög athyglisvert að það er samhljómur á milli áherslna almennings og þeirra mála sem verið er að vinna að í norrænu samstarfi. Nægir þar að nefna umhverfis- og náttúruverndarmál og alþjóðlega glæpastarfsemi og baráttuna gegn henni. Þetta eru mál sem almenningur hefur gríðarlega mikinn áhuga á að sé unnið vel að í norrænu samstarfi. Það hefur svo sannarlega verið gert og er mikil áhersla einmitt á þessa málaflokka. Síðan hefur verið mikil áhersla á að ryðja úr vegi alls kyns hindrunum yfir landamærin sem þurfti að gera til að auðvelda norrænum borgurum að lifa og starfa sitt á hvað í löndunum, stunda nám og annað slíkt.

Þetta er að sönnu eilífðarverkefni. Þegar búið er að leysa vandasöm mál koma einhver ný í staðinn. Þetta er mál sem er mjög brýnt að halda áfram að vinna að á öflugan hátt.

Mér finnst líka gleðilegt að tekin hafi verið ákvörðun um að opna aðalræðisskrifstofu í Færeyjum á næsta ári. Færeyingar eru sú þjóð sem í raun og veru stendur okkur hvað næst. Við Íslendingar höfum líka í formennskutíð okkar í norræna samstarfinu, bæði á vettvangi ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, lagt áherslu á samstarf við Færeyjar og Grænland, vestnorrænu löndin. Þarna sýnum við í verki hversu mikils við metum það samstarf.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að norðurskautssamstarfinu sem nokkrir þingmenn hafa gert að umtalsefni og ég tel að sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í næstu framtíð. Við vorum með formennsku í Norðurskautsráðinu á árabilinu 2002–2004 og þá voru unnar tvær mjög merkilegar skýrslur, annars vegar um loftslagsmál á norðurslóðum og hins vegar um mannlíf á norðurslóðum. Það er óhætt að segja að þetta er í raun og veru grundvallarvinna sem hefur farið fram í þessum málaflokkum sem er mjög gott að byggja á við ákvarðanatöku til framtíðar.

Opnun siglingaleiðar, svokölluð norðausturleið, við það að loftslag hefur hlýnað og breytingar hafa orðið á íshellunni á svæðinu færir okkur auðvitað mjög mörg ný tækifæri. Jafnframt því koma líka hættur í umhverfismálunum varðandi mengun og ýmislegt fleira sem tengist því.

Fyrri hluta árs 2005 var unnin mjög merkileg skýrsla starfshóps utanríkisráðuneytisins sem heitir „Fyrir stafni haf“. Þar er fjallað um tækifæri sem eru tengd siglingum á norðurslóðum. Mér finnst að þær niðurstöður og sú umfjöllun sem þar er sé merkilegt innlegg í þessa umræðu og ég fagna því að núna í mars eigi að halda ráðstefnu á Akureyri um þessi mál. Ég tel það mjög lofsvert framtak.

Þá vildi ég víkja örfáum orðum að EES-samningnum. Það var mikið gæfuspor fyrir okkur Íslendinga á sínum tíma þegar við lögfestum aðild okkar að honum. Hann hefur komið okkur að miklu gagni til að verða aðilar að innri markaði Evrópusambandsins. Það sem við þurfum hins vegar að skoða miklu betur er aðkoma okkar að málum meðan þau eru enn á frumstigi. Ég tel að það þurfi að vera miklu nánari samvinna við Evrópuþingið. Einnig þurfum við að nýta betur sérfræðinefndir sem vinna að undirbúningi mála innan Evrópusambandsins. EES-samningurinn tryggir okkur slíkan rétt. Við höfum rétt til þess að koma að málunum á frumstigi. Mér þótti mjög athyglisvert að Thorbjørn Jagland, forseti norska Stórþingsins, ræddi þessi mál mjög opinskátt í viðtali sem var birt í sjónvarpinu. Það má eiginlega segja að þarna sé sameiginlegur vandi Íslands og Noregs. Við þurfum að ganga í að koma fyrr að málum og hafa áhrif áður en kemur til kasta okkar við að lögfesta hið ýmsa regluverk sem okkur ber samkvæmt samningnum.

Ég hef þessi orð ekki fleiri en ítreka þakkir mínar til hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög góða skýrslu og eins þakka ég mjög góðar og málefnalegar umræður sem hafa farið hérna fram um skýrsluna.