133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:01]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hér liggur frammi og þá ræðu sem hún flutti í morgun um utanríkismál og hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni, sem ég tel heilt yfir að hafi verið ákaflega málefnaleg og kannski með því besta sem hefur verið flutt um utanríkismál í sölum Alþingis lengi. Ég hef fylgst með því um nokkurt árabil, m.a. sem fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra.

Eitt af því sem einkennt hefur þá umræðu nánast alltaf er gagnrýni á það sem ekki er í skýrslum viðkomandi ráðherra hverju sinni. Þetta hefur allt rifjast upp í umræðunni vegna þess að stundum hefur verið brugðið á það ráð af hálfu ráðherra að hafa ákveðið þema í bæði munnlegri og skriflegri skýrslu um utanríkismál. Ég minnist þess að hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fannst fullharður tónn eitt árið þegar þemað var í rauninni hin svokallaða barátta gegn hryðjuverkum og mátti það auðvitað til sanns vegar færa. Annað árið var þemað í skýrslu utanríkisráðherra þróunarsamvinnumál vítt og breitt og þá var í rauninni farið yfir þann málaflokk frá a til ö og ég minnist þess að það var í raun mjög uppbyggileg og góð umræða. Eitt sinn var umræðan nánast algjörlega um Írak og baráttuna gegn hryðjuverkum og þá kunna einhverjir að hafa gagnrýnt það að ekki skyldi vera vikið orðum að almennari þáttum utanríkisþjónustunnar.

Svona er lífið. Það hefur svo sem verið reynt að fitja upp á að ræða um utanríkismál í einstökum þemum með áherslu t.d. á þróunarsamvinnumál, jafnréttismál og annað slíkt. Ég tek undir það sem margir hv. þingmenn hafa sagt í umræðunni að á þessu er nokkuð annar blær en á undanförnum árum, og ég fagna því. Ég tel að nýjar áherslur hæstv. utanríkisráðherra í mörgu tilliti sæti tíðindum, og ég fagna þeim. Og það sem meira er, þær hafa mælst mjög vel fyrir bæði meðal hv. þingmanna og eins hjá þjóðinni hefur maður fundið, þessi svokallaða mýkri ásýnd, t.d. friðargæslunnar og aukin áhersla á þróunarsamvinnumál, sem ég fagna auðvitað sérstaklega.

Í því sambandi langar mig til að koma með nokkur orð vegna þess að ég naut þeirra forréttinda um nokkurt skeið að vera stjórnarformaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem komið hefur hér nokkuð til umræðu, sem er stofnun sem fer með þróunarmál okkar Íslendinga, þó einkum tvíhliða samskiptin. Um það er að segja að ég tek undir margt af því sem fram hefur komið, að Þróunarsamvinnustofnun og það starf sem þar er unnið hefur notið stuðnings allra flokka sem hér hafa verið á þingi. Margt af því sem t.d. hv. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur sagt í þeim efnum í gegnum árin hefur mér fundist ég eiga heilmikla samleið með og vil hæla þeim hv. þingmanni sérstaklega fyrir að hafa sett sig vel inn í þau mál. Raunar naut ég þess sem stjórnarformaður stofnunarinnar lengi að ekki var ágreiningur milli einstakra flokka sem áttu fulltrúa í þeirri stjórn.

Ég minnist þess ekki nokkru sinni að það hafi verið annað en þverpólitísk samstaða um verkefni, sömuleiðis þegar við bættum við samstarfslöndum. Það eru ekki nema rúmlega tvö ár síðan stjórnin ákvað, að höfðu mjög víðtæku samráði við utanríkisþjónustuna, að bæta við samstarfslöndum, sem sætti heilmiklum tíðindum vegna þess að þá bættust við samstarfsálfur. Fram að því hafði samstarf Þróunarsamvinnustofnunar eingöngu tekið til verkefna í Afríku en síðan bættist við Níkaragva og síðan Srí Lanka. Eins og við vitum hefur ýmislegt gengið á í þeim efnum síðan. Sú þróun var svo sem ekki fyrirséð sem hefur orðið til ófriðar t.d. á Srí Lanka. Þegar við fórum þangað fyrir einu og hálfu ári og tókum þar í gagnið skrifstofur og m.a. sendiskrifstofu var þar mjög friðvænlegt um að litast og við áttum mjög gagnlegar viðræður við fulltrúa Norðmanna sem þar hafa farið fyrir friðargæslu. Það var í sjálfu sér ekkert sem benti til að aftur mundi verða heldur ófriðvænlegt á þeim slóðum.

Það minnir okkur á að í þeim löndum og á þeim svæðum þar sem við störfum á vettvangi utanríkisþjónustunnar getur oft brugðist til beggja vona. Ég held að það hafi verið ákaflega mikilvægt í starfi utanríkisþjónustunnar að skilja svolítið Þróunarsamvinnustofnun frá öðrum þáttum vegna þess að það hefur orðið til þess að heilmikil þverpólitísk samstaða hefur orðið um þau störf sem þar hafa verið unnin og við höfum getað látið pólitískt karp eiga sig um önnur atriði sem þar hafa verið til skoðunar.

Ég tel að það hafi líka verið mikilvægt vegna þess að með þeim hætti var unnt að auka mjög framlög til stofnunarinnar. Þótt ég geti tekið algjörlega undir það sem hér hefur komið fram, að framlögin séu alls ekki nægileg af Íslands hálfu til þessara mála, þá er þó þess að geta að m.a. undir forustu fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og að hans tillögu samþykkti ríkisstjórnin að auka framlögin umtalsvert eða upp í 0,35% af landsframleiðslu, sem í alþjóðlegu tilliti er ekki nægilega mikið en þó mjög mikil breyting frá því sem verið hafði. Ef framlögin eru skoðuð síðustu tíu ár, þ.e. nokkurn veginn á starfstíma þeirrar ríkisstjórnar og stjórnarflokka sem nú starfa, þá sjá menn að gífurleg aukning hefur orðið ár frá ári svo jaðrar við nánast byltingu. Vegna þess að þegar hefur komið að starfi Þróunarsamvinnustofnunar hefur breytingin verið svo mikil á milli ára, upp á stundum mörg hundruð milljónir og jafnvel yfir milljarð milli ára, að stofnunin hefur nánast átt fullt í fangi með að skipuleggja störf sín til að bæta við samstarfsverkefnum af því að í starfi hennar eru gerðar mjög stífar kröfur til verkefna um að þau uppfylli skilyrði, það sé gegnsæ stjórnsýsla, vel farið með fjármuni og annað slíkt sem ég held að hafi reynst okkur Íslendingum ákaflega vel.

Ég vildi í rauninni aðeins koma þessu að vegna þess að ég tel að áhersla hæstv. utanríkisráðherra á þessa mýkri ásýnd sé til þess að skapa mjög mikla sátt um störf utanríkisþjónustunnar í landinu. Ég hef fundið að þessu er mjög vel tekið í sölum hv. Alþingis og sömuleiðis í þjóðfélaginu. Það er heilmikill áfangi hjá nýjum utanríkisráðherra sem tekur við nýju ráðuneyti og hefur í rauninni til þess að gera fáa mánuði til að skapa sér sérstöðu, að henni tækist samt sem áður að valda ákveðnum straumhvörfum og ég tel að það sé til marks um pólitískan styrkleika hæstv. ráðherra.

Ég vildi aðeins bæta þessum orðum inn í umræðuna, ég vil ekki lengja hana frekar. Ég hef ákveðna hagsmuni af því að önnur mál komist á dagskrá sem eru til umræðu síðar í dag — og á það sameiginlegt með hv. þm. sem gengur í salinn — en þakka fyrir mjög málefnalega umræðu.