133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:09]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða um árlega skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál. Víða hefur verið komið við eins og komið hefur fram í umræðunum og ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að tíunda það allt.

Ég ætla hins vegar að fara aðeins dýpra ofan í ræðuna, sérstaklega þar sem komið er inn á varnarmál. Eftir að Bandaríkjamenn ákváðu að fara burt með her sinn hafa vaknað upp ýmsar spurningar um varnir Íslands og eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. utanríkisráðherra eru ýmsar spurningar sem hafa vaknað upp. Ég ætla að grípa hérna niður í ræðunni, og ég óska síðan eftir frekari útskýringum.

Það segir um samkomulagið, með leyfi forseta:

„Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna, sem forsætisráðherra og ég undirrituðum í október sl. í Washington, markar upphaf nýs kafla í varnarsamstarfi þjóðanna. Í samkomulaginu stendur skýrum stöfum að Bandaríkin muni standa við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum frá 1951 og að varnir Íslands verði tryggðar með miklum og breytanlegum viðbúnaði og liðsafla.“

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér: Hvað þýðir þetta í raun og veru? Hvað þýðir „með miklum og breytanlegum viðbúnaði og liðsafla“? Þetta hljómar nokkuð vel. Er verið að tala um einhvers konar varasveitir sem hægt er að kalla hingað og varla þá á einhverjum klukkutímum, það hlýtur að taka eina, tvær vikur, eitthvað slíkt. Eða er þetta einhver ákveðinn fastaher sem hægt er að sækja í?

Síðan talar ráðherrann um „skilgreint öryggissvæði við flugvallarsvæðið sem nýtast mun vegna varna landsins til innlendra og fjölþjóðlegra æfinga“. Aftur spyr ég: Hvað þýðir t.d. ráðstöfun varnarsvæðisins? Ég velti fyrir mér hvaða svæði það er sem nákvæmlega er átt við.

Nú eru í gömlu Keflavíkurherstöðinni sennilega rúmlega eitt hundrað byggingar. Hver mun hafa umsjón með því svæði og þeim herdeildum sem væntanlega munu koma hingað í framtíðinni og þá til, eins og segir „innlendra og fjölþjóðlegra“ æfinga?

Ef við förum aðeins dýpra, herra forseti, talar ráðherra um íslenska loftvarnakerfið, að það samanstandi af mörgum þáttum og nefndi þá helst loftvarnaratsjár, örugg fjarskiptakerfi og getu til aðgerðastjórnunar. Þetta virkar allt mjög flókið, herra forseti, og þess vegna spyr ég um betri útskýringar fyrir mig og aðra. Ég hélt að allt fjarskiptakerfi NATO væri í raun farið af vellinum. Varla erum við að tala um það. En ég spyr: Hverjir munu stýra þessum svokölluðu loftvarnaratsjám? Hverjir hafa þekkingu á því núna þegar herinn er farinn? Eru einhverjir Íslendingar sem ráða við það eða eru kannski einhverjir Íslendingar erlendis að nema til að geta stýrt þessu? Er þetta virkilega virk vörn eða er hún fölsk?

Menn hafa talað um hvað það kosti að herinn hafi farið, hversu háar greiðslur íslenska ríkið fái fyrir að sjá um það sem eftir er. Hvað kostar að reka það loftvarnakerfi sem er nefnt hér og gefið í skyn að það sé í sjálfu sér virkt, og er sá kostnaður þá innan ramma fjárlaganna? Því meir sem maður leggst yfir varnarmálin og þessa ræðu, herra forseti, þeim mun meira veltir maður fyrir sér hver sé í raun heildarkostnaðurinn sem þjóðin kemur til með að bera.

Það er fleira sem ég vil koma að, herra forseti. Síðar í ræðunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við hljótum jafnframt að skoða hvernig styrkja megi samstarf okkar við Evrópusambandið á sviði utanríkis- og öryggismála — enda er ljóst að Evrópusambandið mun leitast við að láta meira til sín taka á þessu sviði.“ — Þ.e. öryggismála.

Ég reikna ekki með að hæstv. ráðherra sé að tala um að boða inngöngu í Evrópusambandið, en er hér átt við að Evrópusambandið sé að fara að stofna her, sinn eigin her, varðandi öryggismálin? Ef svo er eru það nýjar og afskaplega fróðlegar upplýsingar sem ég mundi gjarnan vilja fá að vita nánar um. Má vera að ég misskilji, herra forseti.

Einnig er að sjálfsögðu minnst á framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég hefði haldið að öryggisráðið væri aðallega að taka fyrir ófriðarástand, hernaðarátök í hinum ýmsu löndum. Ég velti fyrir mér, herra forseti, ef við erum að sækja þar um aðgang og viljum fá þar fast sæti, höfum við þá yfir að ráða nægilegri sérfræðiþekkingu til að sitja þar fyrir Íslands hönd, hvort sem það er fulltrúi okkar eða aðstoðarmenn hans? Af hverju velti ég þessu fyrir mér? Jú, þetta gæti náttúrlega þýtt enn einn kostnaðarliðinn ef þarf að sérmennta menn ef við fáum sæti í öryggisráðinu annars vegar og hins vegar ef það gerist ekki, hverjir eru þá helstu ráðgjafar okkar varðandi málefni sem koma fyrir öryggisráðið, sem eru þá ófriðarástand annars staðar í heiminum? Ef þekking í utanríkisráðuneyti Íslands er ekki fyrir hendi, hvert sækjum við þá ráðgjöf? Er það t.d. til Bandaríkjamanna? Er öryggisráðið þá nokkuð betur sett ef við erum gróft sagt svona aukaatkvæði fyrir Bandaríkin?

En vera má að við séum einhvers staðar með fólk í námi til að geta sinnt þeim málum sem koma fram í öryggisráðinu, það má vera. Vera má að einhver undirbúningur sé í gangi og þá mundi ég gjarnan vilja fá að vita það.

Herra forseti. Í upphafi var minnst á hin fengsælu fiskimið okkar Íslendinga. Ég varaði við því fyrir nokkrum mánuðum að í september á þessu ári yrðu flotaæfingar Rússa á Atlantshafinu. Því var tekið heldur fálega. Starfsmaður utanríkisráðuneytisins svaraði því til í einum fjölmiðli að þetta ætti ekki við nein rök að styðjast. En það gerðist nú samt í september að þessi floti var á siglingu ekki langt undan landi og herþotur komu hingað til Íslands inn í lofthelgina án þess að nokkur Íslendingur hefði hugmynd um og þá væntanlega ekki hæfni til að átta sig á því að slíkar vélar væru að sveima hér.

Eitt að lokum. Varðandi viðskiptasamning Íslands og — hvað eigum við að segja — til beggja átta, beggja vegna Atlantshafsins, langar mig að fá upplýsingar um afstöðu utanríkisráðherra og/eða ríkisstjórnarinnar þá þegar NAFTA-fríverslunarsambandið óskaði á sínum tíma eftir viðræðum við Ísland og EFTA um svipaða samninga og eru í EFTA.