133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:49]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það að hún er mjög einbeitt í því að styðja umsókn okkar um sæti í öryggisráðinu eins og reyndar miklu fleiri sem hér hafa talað. Ég er ákaflega ánægð að heyra það og tel að við eigum fullt erindi. Við eigum ekki að hafa neina minnimáttarkennd sem mér finnst aðeins hafa brugðið fyrir hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins, að við ráðum kannski ekki við þetta. Staðreyndin er hins vegar sú að við búum yfir heilmikilli sérfræðiþekkingu og hún nýtist ágætlega í þessu sambandi. Það er líka nokkuð langur tími til stefnu og við undirbúum okkur undir það að þetta gangi allt vel þó að við þurfum líka að vera undir það búin að við náum ekki sæti.

Hv. þingmaður talaði um að fylgja ekki einni þjóð umfram aðra og ég er því alveg sammála. Ég held að einmitt vegna þess hvað við erum fámenn eigum við möguleika á að komast áfram án þess að um hagsmunatengsl sé að ræða. Ef litið hefur verið svo á að við værum svo tengd Bandaríkjunum vegna hersins hér að það hafi háð okkur fram til þessa held ég því fram að það sé ekki nú og ekki til framtíðar. Aðstæður hafa breyst mjög og Bandaríkjamenn hafa farið burt með varnarliðið eins og allir þekkja. Ég lít svo á sem utanríkisráðherra að við séum ekki háð þeim frekar en öðrum í skoðunum.

Svo hef ég gjarnan viljað koma aðeins inn á Miðjarðarhafið og þær hörmungar sem þar eiga sér stað og vil gjarnan spyrja hv. þingmann, af því að hún kemur hingað upp aftur og mér finnst hún tala svo (Forseti hringir.) ákveðið, hvort henni finnst að sökin liggi eingöngu hjá Ísrael.