133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:53]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins koma inn á eitt sem kom fram hjá hv. þingmanni. Mér fannst hún vera að hæla sér af því að hún ásamt formanni Samfylkingarinnar hefði átt fund með sendiherra Ísraels og í raun ekki gefið henni tækifæri til að tjá sig. Ég lít ekki svo á að það sé aðferðin til að eiga samskipti við þjóðir, jafnvel ekki þjóðir sem maður er ósáttur við. Ég tel að við eigum að hlusta á málflutning manna, hvort sem þeir eru fyrir botni Miðjarðarhafs eða hvar svo sem deilurnar eiga sér stað og þó að þær séu með þeim hætti að við erum ósátt við framkomu þjóða og getum í raun fordæmt ákveðin atvik sem þar eiga sér stað eins og íslensk stjórnvöld gerðu í þessu tilfelli. Ég tók þann kost að hlýða á mál sendiherrans en vil hins vegar leiðrétta það sem kom fram áður í umræðunni að tilkynning um stuðning Ísraels við öryggisráðið hafi komið fram á þessum fundi. Það var komið fram löngu fyrr að Ísraelsríki mundi styðja framboð Íslands til setu í öryggisráðinu. Það var alls ekki neitt tengt þeim fundi sem átti sér stað núna.

Hv. þingmaður lætur að því liggja að við Íslendingar höfum ekki farið að samþykktum öryggisráðsins með því að „styðja“ innrásina í Írak en það er þannig með túlkun á ályktun 1441 frá nóvember 2002 að það var mjög umdeilt hvort hún væri nægilega sterk til þess að vera bakstuðningur við þessa innrás eða ekki. Þetta er eitt af óútkljáðu málunum og það er fjöldi annarra mála í sambandi við þetta hræðilega stríð í Írak. (Forseti hringir.) Ég hef sagt í þessari umræðu og segi einu sinni enn: Ég held að við ættum að horfa fram á veginn.