133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:56]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ályktun 1441 var óbeint lögð til grundvallar. Hún var haldreipi sem menn héldu að þeir hefðu. Hins vegar hafa verið færð mjög gild rök fyrir því af sérfræðingum í alþjóðalögum og alþjóðarétti að hún hafi ekki nægt, og síður en svo. Það má vera að menn deili enn um það einhvers staðar en í mínum huga nægði hún aldrei og er einmitt ágætislexía í því hvernig ekki á að standa að svona hlutum.

Hvað varðar samskiptin við Ísrael höfum við alla tíð, jafnaðarmenn og aðrir á Íslandi, átt ágæt samskipti við stjórnvöld þar. Hið sama má segja um stjórn Palestínumanna á síðari árum, ágæt samskipti, og það höfum við í Samfylkingunni átt líka lengi og vel. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir þegar sendiherra Ísraels kemur í sína ferð til Íslands, og hefur auðvitað gert það áður, til að tala máli stjórnvalda þar eins og allir gátu heyrt í viðtölum við hana í fjölmiðlum er hvort við tökum þeim ræðum og þeim rökum þegjandi og hljóðalaust eins og einhvern tíma hefur verið gert eða hvort við mætum þeim með einhverjum hætti. Sumir stjórnmálamenn ákváðu að sýna vanþóknun sína á framferði Ísraelsstjórnar með því að eiga ekki fund með sendiherranum. Við ákváðum að eiga fund með sendiherranum og koma skilaboðum þingflokks Samfylkingarinnar mjög skýrt til skila við hana. Það tókst. Það má vel vera að það hafi kannski ekki verið diplómatískt kórrétt en hins vegar komust skilaboð okkar og skoðun á framferði Ísraelsstjórnar mjög skýrt til skila til sendiherrans og við vonum að hún fari með þau alla leið til Tel Aviv.