133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:13]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég hef talað eitthvað óskýrt í sambandi við Ratsjárstofnun en hún verður rekin af Bandaríkjamönnum þangað til í ágúst á næsta ári. Hvað þá gerist er algerlega óljóst. Við bindum vissulega vonir við að Bandaríkjamenn taki áfram þátt í rekstrinum eða jafnvel NATO en það eru allar líkur á því að Íslendingar þurfi að koma meira að þeim rekstri til framtíðar. Vissulega fylgir því kostnaður að við tökum á okkur meiri skyldur í sambandi við varnir Íslands en áður var og einhverjum finnst það bara allt í lagi, sumum hér í þingsalnum finnst það hið besta mál, að herinn sé farinn þó að það kosti okkur eitthvað, enda erum við rík þjóð. En ég vil þó leggja áherslu á að varnarsamningurinn við Bandaríkin heldur og Bandaríkin taka á sig miklar skyldur í sambandi við varnir Íslands til framtíðar.

Af því að hv. þingmaður er að velta fyrir sér hvort við séum bara ekki í vasanum á Bandaríkjamönnum og þess vegna skipti litlu máli hvort við erum í öryggisráðinu eða ekki. Mér heyrðist hann vera að tala um það, þá er það reyndar þannig að það er alls ekki nein algild regla að Íslendingar greiði atkvæði eins og Bandaríkjamenn hjá Sameinuðu þjóðunum, alls ekki. Það er hægt að telja upp lönd sem Íslendingar hafa átt meiri samleið með en með Bandaríkjamönnum ef út í það er farið.