133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:17]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sambandi við það sem hv. þingmaður sagði í lokin þá er það skýrt mál að við berum ekki ábyrgð og þurfum ekki að afhenda fyrirtækjum neina mengunarkvóta til framtíðar. Ef þau geta ekki aflað þeirra sjálf verður ekki um það að ræða að þau fjárfesti hér. Þannig er það. Það hefur aldrei verið gefið í skyn og var ekki gert á meðan ég fór með þann málaflokk að við ætluðum að sjá þeim fyrir kvótum til framtíðar. Hins vegar er þetta innan marka miðað við það tímabil sem við erum að tala um í dag.

Hvað varðar stjórnsýslumál þá höfum við lagt mikla áherslu á að hægt sé að tryggja snurðulausa yfirfærslu á þeim verkefnum sem þarna er um að ræða. Til framtíðar litið er ekki ólíklegt að málaflokkar færist yfir til fagráðuneyta en það mun ekki gerast allt í einum hvelli heldur má reikna með því að einhverjir mánuðir líði þangað til þau mál skýrast. Þá verður hægt að hafa þetta eins og eðlilegast er samkvæmt íslenskri stjórnsýslu.

Það má t.d. taka fram að sýslumannsembættið flyst þegar um áramót. Utanríkisráðuneytið mun gera samning um þá þætti er varða okkar svið til framtíðar. En sýslumannsembættið sem slíkt færist og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að það verði neitt vandamál. Ég held að það sé ágætisstjórn á þessu af hálfu utanríkisráðuneytisins.