133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist hæstv. ráðherra eiginlega segja að næsta ríkisstjórn verði að bjarga þessu máli. Þá gerum við það að sjálfsögðu (Gripið fram í: Förum létt með það.) og förum létt með það. En auðvitað er það algerlega absúrd að mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar, þ.e. flugstöðin í Keflavík, skuli ekki tilheyra samgöngugeiranum og vera undir stjórn samgönguráðherra. Þannig hefði það alltaf átt að vera. Það hefði verið handhægt á sínum tíma að draga þar, (Gripið fram í.) ja, hún var nú ekki á lausu þá, hinna svokölluðu varnarsvæða þannig að flugstöðin væri utan þeirra. Girðingin gat þá legið um flughlöðin.

Ég sé ekki betur, miðað við kortið í skýrslu ráðherrans, en að eiginlegt varnarsvæði eða þetta sem hér er kallað öryggissvæði, sé aðeins lítill hluti svæðisins suðaustan flugbrautirnar. Allur hinn hluti svæðisins ætti eðlilega að færast undir lögsögu samgönguráðuneytisins. En það verður að taka til í þessu í vor eins og í fleiri málum eftir stjórnarskiptin.

Aftur að Kyoto. Það hefur verið talað um að svigrúm sé fyrir eitt meðalstórt álver í viðbót og ef það bætist við, eitt af þeim þremur sem verið er að undirbúa á fullu, þá verður sprungin öll undanþágan sem grátin var út fyrir Ísland, 1.600 þúsund tonna viðbótarlosunarheimild. Viðbótarheimildin kom til viðbótar því að Ísland fékk bestu meðhöndlun allra ríkja þegar upphaflega viðmiðunin gagnvart almennri losun var sett, þ.e. mátti auka losun um 10% frá 1990. Á borðunum eru meira en tvöföldun álversins í Straumsvík, 250 þús. tonna fyrri áfangi álvers í Helguvík, 250 þús. tonna framleiðsla við Húsavík. Álver í Þorlákshöfn dúkkaði upp, lítið að vísu í byrjun en það verður sennilega ekki mjög hagkvæmt, 60 þús. tonn, þannig að það verður stækkað. Og í dag fréttist af því að Norsk Hydro er á leiðinni til Íslands með óskir um að reisa 600 þús. tonna álver.