133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[18:14]
Hlusta

Flm. (Björn Ingi Hrafnsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að einhverjum kann að þykja of langt gengið með þessu frumvarpi og öðrum of skammt. En ég held að það sé ákveðinn misskilningur hjá hv. þingmanni að þetta kalli ekki á breytingar, t.d. fyrir umsækjendur um nafnið Blær. Það er ekkert kveðið á um það tiltekna nafn í lögum. Það var einungis þannig, sem er reyndar mjög tæknileg útskýring á því, að stúlka sem er nú á fertugsaldri heitir Blær og hefur heitið það frá fæðingu. En þegar síðasta breyting var gerð á lögum um mannanöfn varð til mannanafnaskrá. Eftir að sú skrá var gefin út þá var skráð þar karlmannsnafnið Blær.

Af þeirri tæknilegu ástæðu fæst núna ekki viðurkennt kvenmannsnafnið Blær þótt það hafi sannarlega komið á undan. Þetta er það sem er rakið í bréfi frá móður þessarar stúlku og reyndar tók Baldur Sigurðsson, sem á sæti í mannanafnanefnd, undir þetta í samtali á dögunum.

Hins vegar kann vel að vera, hæstv. forseti, að sníða megi ákveðna vankanta af þessu frumvarpi til að það falli betur að þeim áherslum sem komu fram í greinargerðinni. En það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það kalli á að til verði eitthvað fyrirbæri í dómsmálaráðuneytinu sem geti kallast ígildi mannanafnanefndar og komið sér upp mannanafnaskrá þótt það sé í sjálfu sér bráðfyndin tilhugsun.

Málið er að í greinargerðinni er sérstaklega kveðið á um þann megintilgang, oft er litið til vilja löggjafans í þessum efnum, að meginreglan eigi að breytast, þ.e. að nú sé reglan sú að allt sem ekki er sérstaklega leyft sé bannað en þessu verði snúið við þannig að allt sem ekki er bannað verði leyft.

Ég held að þetta sé dálítið veigamikið atriði. Um leið og ekki er til fyrirbæri sem heitir mannanafnaskrá þá hlýtur frelsið að aukast. Ég skal viðurkenna að í fyrstu velti ég því fyrir mér að hafa frumvarpið með þeim hætti að það mundi afnema lögin alveg. En þeir lögfræðingar og sérfræðingar á þessu sviði sem ég ræddi við töldu breytingarákvæði í frumvarpinu nauðsynleg af praktískum ástæðum, m.a. út af samskiptum við Þjóðskrána. En það kann að vera rétt að þess þurfi ekki. Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að það geti tekið breytingum. Ég er fremur á því að þrátt fyrir allt séum ég og hv. þingmaður sammála um flesta hluti sem snúa að þessu máli. Það er síðan lagatæknilegt hvernig hægt er að koma því til skila. Þetta voru ráðleggingar sem ég fékk, m.a. hjá lögfræðingum Alþingis, að til þess að þetta mundi ganga upp gagnvart praktískri stöðu, þegar verið er að skíra börn og annað slíkt, væri betra að hafa þetta.

Ein hugmyndin sem kom upp hjá mér fyrstu stigum var einfaldlega að gera stutt lagafrumvarp sem gerði ráð fyrir því að lög nr. 45 frá 1996 mundu falla niður. En spurningin er, eins og hv. þingmaður nefndi, hvort það væri fullmikið „anarkí“, svo ég sletti hæstv. forseti, og bara bundið af reglum Þjóðskrár um 200 stafa hámark og annað slíkt. Ég skal ekki um það segja hvort það mundi ganga upp.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekkert er kveðið á um ættarnöfn í þessu frumvarpi. Ég rakti það að þetta tiltekna bréf sem ég las upp, frá Aðalsteini Leifssyni lektor, hefði vakið mig til umhugsunar um ættarnöfnin. Á því er alls ekki tekið í þessu frumvarpi. En ég lýsi mig sammála því sem hv. þingmaður segir, að þegar ég er búinn velta því fyrir mér er í raun ekki mikil sanngirni í að sumir geti verið með ættarnöfn en aðrir ekki. Við megum heldur ekki gleyma því að margir sem hafa flutt til útlanda í lengri eða skemmri tíma hafa afráðið, kannski ekki að taka upp ættarnöfn, af því að þeir hafa ekki heimild til þess, að taka upp einhvers konar nöfn til að hjálpa sér í samskiptum erlendis. Íslenska nafnakerfið er ekki alltaf þjált í þeim efnum.

Ég held að við getum verið sammála um margt, ég og hv. þingmaður. Ég fagna liðveislu hans af þeim augljósu ástæðum að þetta er minn síðasti dagur í þinginu. Ég á svo sem ekki von á því að verða hér tíður gestur. Ég fagna liðveislu hv. þingmanns og vonast til að hann haldi þessum kyndli á lofti í þinginu ásamt flutningsmönnum og öðrum sem hafa tjáð sig um þetta.

Ef niðurstaðan af þessu frumvarpi getur orðið til þess að þessum málum verði komið í breytt horf, þótt gerðar verði einhverjar breytingar á þessu frumvarpi, þá held ég að til mikils hafi verið barist. Ég vænti þess að hv. þingmaður og fleiri muni leggja mér og fleirum lið í þeim efnum.