133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[18:21]
Hlusta

Flm. (Björn Ingi Hrafnsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmanni er illa við að því sé haldið fram að við séum sammála í þessu máli þá skulum við endilega ekki halda því fram.

Hins vegar held ég mig við að þarna sé um ákveðinn misskilning að ræða hjá hv. þingmanni. Það kemur skilmerkilega fram í greinargerð með frumvarpinu að nánast er kveðið á um að allt skuli leyft sem ekki verður bannað í sérstökum undantekningartilfellum, svo sem þegar um er að ræða hreina nafnleysu. Þá getum við hugsað okkur dæmi sem væri fimm x í röð eða þá að nafn geti orðið til ama. Það eru til örfá dæmi um slíkar hugmyndir og hefur heyrst fleygt að sumar af þeim tillögum sem nefndin hafi hafnað í gegnum tíðina hafi borist til hennar á tilteknu bili sólarhringsins, síðla nætur um helgar. En látum það liggja á milli hluta.

Ég ítreka það sem ég sagði, að ég held að umræðan í kringum þetta frumvarp hafi orðið til að vekja hv. þingmenn til umhugsunar um að tími sé kominn til að breyta þessu. Ég mundi fagna því sérstaklega ef kaflanum um ættarnöfnin yrði líka breytt í frjálsræðisátt og velti fyrir mér, úr því að undirtektirnar eru með þessum hætti, hvers vegna engum hv. þingmanni hafi dottið í hug að koma með þetta mál fyrr. Við skulum velta því fyrir okkur.

Ég held að megintilgangur þessa frumvarps sé alveg skýr. Hinn möguleikinn var að leggja til að lögin um mannanöfn yrðu lögð niður til að koma því frjálsræði á sem hér er lagt til. Af praktískum ástæðum, vegna samskipta við Þjóðskrá, var mér ráðlagt að gera það ekki. Ef það er eina leiðin til að ná megintilgangi frumvarpsins þá vonast ég til að allsherjarnefnd skoði það í þinglegri meðferð.