133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[18:24]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður verður að hafa þetta eins og hann vill. En verði lög úr þessu frumvarpi þá dugir ekki að það standi í greinargerð að menn vilji hafa tiltekið frelsi í þessu og allt verði leyft nema það sé sérstaklega bannað, ef ég tók rétt eftir því sem þingmaðurinn sagði, vegna þess að það er ekki svo.

Eftir stendur 5. gr. sem er þannig að nöfn sem ekki taka íslenska eignarfallsendingu eru bönnuð, að nöfn sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli eru bönnuð nema í sérstökum undantekningartilvikum. Nöfn eru bönnuð ef þau brjóta í bága við íslensk málkerfi. Nöfn eru bönnuð ef þau eru ekki rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Ættarnöfn eru bönnuð. Fleiri en þrjú eiginnöfn og millinöfn eru bönnuð. Millinafn sem hefur nefnifallsendingu er bannað o.s.frv.

Ef menn hafa ákveðinn vilja sem kemur fram í greinargerð, fjölmiðlasamtölum og þingræðum, þá er betra að frumvarpið feli einnig í sér þann vilja. Ég ætla ekki að segja meira um þetta mál að sinni.