133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

virðisaukaskattur.

338. mál
[18:27]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason. Tillögugreinin er einföld og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„3. málsl. ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum um virðisaukaskatt fellur brott. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það sem samkvæmt þessari grein skal falla brott er þessi setning: Heimildin tekur ekki til almenningsvagna. Um er að ræða ákvæði sem sett var inn í lögin í maí 2001 sem heimildarákvæði um að endurgreiða þeim sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni tvo þriðju hluta af þeim virðisaukaskatti sem lagður er á við kaup á nýjum vögnum. Í lögunum segir að endurgreiðsluheimildin verði bundin við hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni, sem nýskráðar er á tímabilinu, sennilega á einu ári og búnar eru aflvélum. Síðan kemur þessi setning: Heimildin tekur ekki til almenningsvagna. Um það fjallar þetta litla frumvarp. Það var áður flutt á 130. og 131. löggjafarþingi eins og fram kemur í greinargerð en varð í hvorugt skiptið útrætt og það er endurflutt hér óbreytt.

Virðulegi forseti. Hér er um réttlætismál að ræða og hér er líka um þjóðþrifamál að ræða. Verði frumvarp þetta að lögum sitja almenningsvagnar við sama borð og hópferðabílar þannig að af kaupum nýrra vagna frá 1. september 2000 verða tveir þriðju hlutar virðisaukaskatts endurgreiddir. Ég hef fengið þær upplýsingar hjá kaupendum og rekstraraðilum almenningsvagna víða um land að þetta mundi jafngilda um 170 millj. kr. sem yrði ekki skilið öðruvísi en sem myndarlegur stuðningur við almenningssamgöngur, stuðningur við loftslagsvernd, hvatning til að draga úr mengun vegna bílaumferðar á þéttbýlissvæðum, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig á Akureyri, Ísafirði, Fjarðabyggð, Reykjanesi og innan Akraness. Til þessara staða sem ég hef nú talið upp hafa frá 1. september 2000 verið keyptir 65–70 stætisvagnar. Þegar þetta heimildarákvæði var sett inn í lögin 2001 átti það að vera takmarkað og gilda fram til loka desember 2003. Það hefur síðan verið framlengt á hverju ári og gildir nú til loka yfirstandandi árs.

Forsendurnar, virðulegur forseti, fyrir því að þetta heimildarákvæði var sett í lög var að brýn þörf væri á því að endurnýja hópferðabílaflotann þar sem hann væri orðinn óeðlilega gamall og mikil mengun stafaði frá gömlum vögnum. Þarna var sem sagt lögð áhersla á það að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, eins og segir í greinargerð með upphaflegu frumvarpi um heimildarákvæðið, og því var ætlað að koma til móts við þann umhverfis- og öryggisvanda sem stafar af úreltum hópferðabifreiðaflota landsins.

Það er í rauninni alveg óskiljanlegt, virðulegur forseti, að almenningsvagnar skuli hafa verið undanþegnir á þessu stigi máls. Kann ég ekki skýringar á því aðrar en að menn hafi talið að floti almenningsvagna væri eitthvað nýrri eða betur búinn en hópferðabílaflotinn. Það kann að vera að svo hafi verið en þá hefur ekki munað miklu, virðulegi forseti, því að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá forstjóra Strætós bs., byggðasamlagsins Strætós, sem rekur almenningssamgöngur á útvíkkuðu höfðuðborgarsvæði var meðalaldur vagnanna 12–13 ár áður en Strætó bs. hóf að endurnýja flota sinn. Þetta var á árinu 2001, virðulegur forseti, og elsti vagninn var þá frá árinu 1983. Almenn viðmiðun meðal fyrirtækja í rekstri strætisvagna á Norðurlöndum t.d. er að vagnarnir verði ekki eldri en 12 ára og að meðalaldur verði í kringum sex ár. Það er mat mitt og ég tek undir það með forstjóra Strætós bs. að forsendur um aldur og mengun hafi einnig átt við um almenningsvagnaflotann á þessum tíma en af einhverjum undarlegum ástæðum hefur það kannski ekki komið fram við afgreiðslu málsins. Að minnsta kosti hef ég ekki fundið í umræðum að um það hafi verið fjallað.

Ég nefndi, og það kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi, að jafngild rök liggja að baki nauðsynlegrar endurnýjunar á flota almenningsvagna og flota hópferðabifreiða. Stærsta fyrirtækið á þessu sviði er Strætó bs. sem ég nefndi sem er byggðasamlag í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustusvæðið er mjög stórt. Það er dreifbýli á Kjalarnesi og í Mosfellsdal, þéttbýli í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Álftanesi og Reykjanesbæ. Í ársbyrjun 2006 var þjónustusvæðið útvíkkað til Akraness í tilraunaskyni í tvö ár og þykir sú tilraun hafa tekist vel. Árborg, Hveragerði og Reykjanesbær hafa lýst áhuga á samstarfi við Strætó þannig að þjónustan verði með svipuðum hætti og gagnvart Akranesi.

Strætó bs. heldur nú úti akstri með 115–120 vögnum á þjónustusvæði sínu og þar af eru um 50–55 vagnar á vegum verktaka. Á því tímabili sem um ræðir, ekki frá 1. september 2000 eins og heimildargreinin nær til, heldur frá stofnun Strætós bs. sem var tæpu ári síðar, 1. júlí 2001, hefur Strætó bs. keypt 45 nýja vagna. Eins og ég sagði áðan var meðalaldur vagnanna 12–13 ár þegar þessi endurnýjun hófst. Álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa er 161,6 millj. kr. og tveir þriðju hlutar, það sem endurgreiðslan tæki þá til, nema ríflega 107 millj. kr. Stærsti verktakinn, undirverktaki Strætós bs., Hagvagnar, hefur á sama tíma keypt 21 vagn til aksturs á þessu sama þjónustusvæði og álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa nemur um það bil 64 millj. og reiknuð endurgreiðsla, ef jafnræði væri með almenningssamgöngum og öðrum hópferðum, næmi þá tæplega 43 millj. kr.

Eins og ég nefndi áðan er utan höfuðborgarsvæðisins haldið uppi reglubundnum almenningssamgöngum á Akureyri, Ísafirði, Fjarðabyggð, Reykjanesbæ og innan Akraness. Ætla má að endurgreiðsla tveggja þriðju hluta virðisaukaskatts vegna kaupa á almenningsvögnum til allra þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir gæti numið um 170 millj. kr. vegna tímabilsins 1. september 2000 til 31. desember 2006.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að Strætó bs. hefur haft forustu um mikla endurnýjun og fjölgað verulega í vagnaflota sínum, bæði beint og óbeint og þá á ég við undirverktakana. Þessir nýju vagnar eru ekki aðeins öruggari til fólksflutninga og menga minna, eru sparneytnari, heldur hefur Strætó bs. tekið í notkun tvo metanknúna vagna og þrjá vetnisvagna og hefur með þeim hætti skipað sér í forustusveit þeirra sem reyna að breyta frá því að nota jarðefnaeldsneyti til samgangna.

Það er mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að styðja við bakið á almenningssamgöngum í landinu, ekki síst með tilliti til mikils útblásturs, mengunarefna og loftslagsbreytinga. Loftmengun, svifryk og sót af völdum samgangna er eitt helsta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu enda byggja nær allar samgöngur hér á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis. Jafnframt því að styðja við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum er nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr loftmengun. Fyrsta skrefið, virðulegur forseti, er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga. Í þeim tilgangi er frumvarp þetta nú flutt í þriðja sinn.

Virðulegur forseti. Það er langt liðið á þennan dag og þingfundir hafa staðið sleitulítið frá kl. hálfellefu í morgun. Ég vænti þess vegna ekki mjög umfangsmikilla umræðna um þetta merka mál en legg til að eftir umræðu hér og nú verði frumvarpinu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Því er ekki að leyna að það væri freistandi ef umhverfisnefnd gæti litið á frumvarpið líka þar sem ég veit að á borðum umhverfisráðherra þessa dagana eru, eins og jafnan áður, hvatningabréf og óskir um aðgerðir til að efla almenningssamgöngur á stærsta þéttbýlissvæði landsins.