133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

virðisaukaskattur.

338. mál
[18:45]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki ljúka þessari umræðu öðruvísi en svo að þakka hv. þm. Birni Inga Hrafnssyni fyrir góðar undirtektir við mál okkar flutningsmanna þessa frumvarps. Ég vænti mikils af stuðningi hans, bæði sem formanns borgarráðs Reykjavíkurborgar og varaþingmanns og áhrifamanns í öðrum stjórnarflokknum, Framsóknarflokknum.

Ég held að allir hljóti að sjá að þeir peningar sem hv. þingmaður kallaði réttilega blóðpeninga hafa haft mjög íþyngjandi áhrif á rekstur almenningsvagnakerfisins í landinu þennan tíma. Það yrði almenningssamgöngum veruleg lyftistöng ef hægt væri að fá þessa peninga endurgreidda. Þá værum við kannski nær því marki að auka tíðni vagnanna svo að almenningssamgöngur yrðu raunverulegur valkostur í þessu bílhrjáða samfélagi okkar hér á höfuðborgarsvæðinu.