133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

samgöngur til Vestmannaeyja.

[15:12]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Eins og kunnugt er eru samgöngur eitt mikilvægasta málefni hvers byggðarlags. Það má segja að samgöngur séu undirstaða allra byggða. Það er líka kunnara en frá þurfi að segja að samfélagið í Vestmannaeyjum hefur nokkra sérstöðu umfram önnur byggðarlög því að þjóðleiðin til Eyja liggur ekki um land heldur á sjó eða í lofti.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna þeim breytingum sem gerðar hafa verið á flugsamgöngum til Eyja að undanförnu með ótrúlega jákvæðum afleiðingum. Hins vegar stendur eftir sjóleiðin og það er gamli Herjólfur. Það heyrist æ oftar að Herjólfur sé hægfara, taki fáa bíla og haldi að sumu leyti Vestmannaeyingum og ferðamönnum í gíslingu vegna þess hvað bíladekkið er lítið. Herjólfur er að mörgu leyti barn síns tíma en það má líka segja að við Íslendingar höfum dregist aftur úr öðrum þjóðum. Þurfum við ekki annað en að fara til Færeyja og sjá nýjan Smyril sem siglir á milli Þórshafnar og Suðureyjar til að sjá hversu aftarlega á merinni við stöndum þegar ferjur eiga í hlut.

Í samningum við Eimskipafélagið um rekstur Herjólfs til Eyja er ákvæði um að heimilt sé fyrir Eimskipafélagið að reka nýtt skip á þessari leið. Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að nýta það ákvæði í ljósi vaxandi umferðar og þess vaxandi þrýstings Eyjamanna að komast til lands á þeim tíma sem þeim hentar, að þeir geti tekið bíla sína með og ekki síst vegna vaxandi ferðaþjónustu sem er einn aðalvaxtarsprotinn í Vestmannaeyjum. Það er með öðrum orðum tímabært að Vestmannaeyingar geti ferðast eðlilega milli lands og Eyja sem og ferðamenn.

Ég beini þessum spurningum til hæstv. samgönguráðherra.