133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

samgöngur til Vestmannaeyja.

[15:16]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta mig en mér mun hafa orðið fótaskortur á tungunni áðan og sagt að menn stæðu aftarlega á merinni og af því að ég sé að hæstv. landbúnaðarráðherra situr hér þá er ekki mjög glæsilegt að standa aftarlega á merinni heldur munu menn sitja þar.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en árétta það hins vegar að verkefnið við Bakkafjöru hlýtur að vera langtímaverkefni. Það er afskaplega kostnaðarsamt, það er undir rannsókn og sýnist sitt hverjum um það. Við erum að tala um úrræði í bráð og þar hefur einmitt verið bent á, í ljósi þeirra krafna og þarfa sem uppi eru í samfélaginu í Vestmannaeyjum, að sem verkefni og lausn í bráð þarf að fá nýja ferju milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja sem bæði gengur hraðar og hefur pláss fyrir fleiri bíla en núverandi Herjólfur en hann er sannarlega barn síns tíma.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að nýta það úrræði sem er í samningnum við Eimskip (Forseti hringir.) um heimild til að leita nýrra útboða.