133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

hlutafélag um Flugmálastjórn.

[15:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. samgönguráðherra hvort ekki komi til greina að endurskoða eða afturkalla áform ráðherrans um að einkavæða eða hlutafélagavæða flugleiðsöguþjónustu og starfsemi á flugvöllum landsins.

Síðastliðið vor voru keyrð í gegnum þingið lög sem fólu í sér stofnun sérstaks hlutafélags um flugumferðarstjórn og rekstur á flugvöllum landsins, þ.e. einkavæðingu á grunnþáttum samgangna og öryggismála. Til þessa hefur starfsemin lotið lögum um opinbera þjónustu og þeir starfsmenn sem að henni koma verið opinberir starfsmenn. Þessi verkefni verða nú afhent fyrirtækinu Flugstoðum frá og með næstu áramótum gangi áform hæstv. ráðherra fram. Rekstur flugvalla og flugumferðarstjórn er í mínum huga hluti opinberra samgangna í landinu enda lögðumst við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn einkavæðingu á þessum grunnþáttum almannasamgangna.

Nú berast auk þess fréttir af því að ekkert hafi gengið í að ganga frá ráðningarsamningum milli hins nýja fyrirtækis og flugumferðarstjóra eða annarra starfsmanna á flugvöllum landsins. Allt þetta var reyndar fyrirsjáanlegt og við bentum á það á sínum tíma, en sama fyrirtækið á að reka flugvelli landsins frá og með næstu áramótum, það á að stofna hlutafélag um rekstur flugvallanna á Ísafirði, Gjögri, Akureyri og Egilsstöðum sem eru grunnnet almannasamgangna. Allt er enn þá í óvissu um hvort þetta gangi einu sinni upp.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki sé vit fyrir hæstv. ráðherra að endurskoða þessi áform, afturkalla hugmyndirnar um að hlutafélagavæða þessa starfsemi og halda henni áfram sem hluta af eðlilegu samgangnaneti landsins (Forseti hringir.) í stað þess að gera svona tilraunir og æfingar.