133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

hlutafélag um Flugmálastjórn.

[15:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki komið með nein rök fyrir því hvers vegna hlutafélagavæða á flugvellina eða flugleiðsögustarfsemina og stofna nýtt fyrirtæki sem reka á á samkeppnisgrunni í engri samkeppni önnur en „af því bara“.

Hitt vil ég láta hæstv. ráðherra vita að honum ber ekki saman við það sem ég heyri frá starfsmönnum flugvallanna. Þeir hafa fengið uppsagnarbréf miðað við uppsögn 1. desember. Hið nýja fyrirtæki á þó ekki að taka til starfa fyrr en 1. janúar 2007. Auk þess eru þessi mál öll og samskipti við ráðuneytið hvað þetta varðar með allt öðrum hætti en hæstv. ráðherra lýsir hér. Þau eru nánast engin, hafa nánast engin verið síðan í vor með formlegum hætti við ráðherra og yfirmenn ráðuneytisins eins og lofað var.

Þetta er alveg dæmigert þegar lagt er út í slíkan einkavæðingarferil á grunnalmannaþjónustu eins og verið er að leggja út í hér með flugvalla- og (Forseti hringir.) og flugleiðsöguþjónustuna, sem er bara fullkomlega rangt, herra forseti, og ég skora á hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að afturkalla þessa ákvörðun.

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir hv. þingmenn um að virða takmarkaðan ræðutíma í þessari umræðu.)