133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

rannsókn sakamála.

[15:29]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu sl. miðvikudag birtist grein eftir Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá embætti ríkislögreglustjóra, sem bar heitið „Atlaga úr hulduheimi – Jón og séra Jón“. Í þessari grein er sett fram sú skoðun að mikill munur sé að verða á rannsóknum og meðferð mála sem snúa að ríkum eða valdamiklum sakborningum annars vegar og hinna venjulegu, eins og það er orðað, hins vegar. Við þessari þróun þurfi að sporna til þess að allir þegnar þessa lands sitji við sama borð þegar þeir eru undir opinberri rannsókn.

Hér talar einn af æðstu yfirmönnum hjá embætti ríkislögreglustjóra og því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann sé sammála þessari afstöðu aðstoðaryfirlögregluþjónsins og hvort hann telji ástæðu til að bregðast við henni með einhverjum hætti. Í greininni segir einnig orðrétt:

„Við búum við þróaðar réttarreglur sem eiga að vera nægilega traustar til þess að tryggja að allir fái sömu réttlátu málsmeðferðina, hvort sem um er að ræða auðmann, fjölmiðlakóng, einstætt foreldri eða öryrkja.“

Síðan er því haldið fram að Baugsmálið sé dæmi um að svo sé ekki.

Hér er í raun verið að halda því fram af háttsettum yfirmanni lögreglunnar að jafnræðisregla réttarríkisins virki ekki og að borgurunum sé mismunað í réttarkerfinu, sem eru mjög alvarlegar ásakanir sem eðlilegt er að hæstv. dómsmálaráðherra svari.

Það er ástæða til að benda líka á að í Fréttablaðinu setur ritstjórinn, sem er fyrrum dómsmálaráðherra, fram þá skoðun að hafi aðstoðaryfirlögregluþjónninn rétt fyrir sér þurfi án tafar að gera reka að því að þeir dómarar sem hlut hafa átt að dómum og úrskurðum í Baugsmálinu verði leystir frá störfum og jafnframt að dómsmálaráðherra og Alþingi verði að endurreisa dómstólana með nýrri löggjöf. Svo alvarlega metur fyrrverandi dómsmálaráðherra þessar skoðanir yfirlögregluþjónsins. Því spyr ég líka: Hverju svarar núverandi dómsmálaráðherra skoðunum fyrrverandi dómsmálaráðherra í þessu máli?